Lögmenn

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:54:13 (3466)

1997-02-13 11:54:13# 121. lþ. 70.5 fundur 255. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:54]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur í augum uppi að störf lögmanna eru margvísleg. Þó að við horfum einvörðungu á málflutningsstörfin þá eru þau bæði unnin utan réttar og innan. Þar að auki sinna lögmenn margvíslegum störfum við lögfræðilega ráðgjöf án þess að mál gangi til réttar, oft með því að leiða ágreining til lykta og koma í veg fyrir að mál fari til dómstóla. Það er enginn vegur að greina á milli í þessu efni. Lögmenn hafa tilteknu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu og það eftirlitshlutverk sem hér er verið að mæla um tekur til starfa þeirra sem lögmanna sem sjálfsagt verða ekki skýrð og afmörkuð í eitt skipti fyrir öll. Þau geta mótast og breyst í rás tímans eftir því sem þjóðfélagið breytist þó að í grundvallaratriðum lúti störf þeirra að málflutningi fyrir dómstólum. En þau störf eru bæði unnin í réttinum sjálfum og utan hans og eftirlitið hlýtur því að taka til þeirra starfa í heild sinni.