Lögmenn

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:56:00 (3467)

1997-02-13 11:56:00# 121. lþ. 70.5 fundur 255. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:56]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil gera athugasemdir við í innleggi mínu í umræðu um frv. til laga um lögmenn. Það er annars vegar þetta aga- og eftirlitsvald með lögmönnum og hins vegar skylduaðild að Lögmannafélaginu. En áður en að því kemur langar mig að vitna hér aðeins til greinar sem Ragnar Aðalsteinsson lögmaður skrifaði í Morgunblaðið, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi dómsmálaráðherra er gengið þvert á hugmyndir um nauðsyn sjálfstæðrar og óháðrar lögmannastéttar í landinu og Lögmannafélag Íslands svipt því hlutverki sem það hefur gegnt í því skyni að viðhalda sjálfstæðri lögmannastétt. Lagt er til að dómsmálaráðherra veiti einn leyfi til málflutnings og svipti lögmenn starfsleyfum. Hann hefur úrslitavald um efni siðareglna lögmanna, þ.e. hvað teljist góðir lögmannshættir. Dómsmálráðherra skipar meiri hluta lögmannaráðs, en þrátt fyrir það er ráðið einungis ráðgefandi standi vilji ráðherra til að svipta lögmann starfsréttindum sínum. Ráðherra þarf ekki að fá ákvörðun sína um að svipta lögmann starfsréttindum staðfesta fyrir dómi.``

Það frv. sem hér liggur fyrir er að minni hyggju merkilegt að því leyti að mér sýnist sem vanti allar skilgreiningar eða útskýringar á nauðsyn þess að leggja frv. fyrir þingið.

Í greinargerð með frv. er ekki gerð nein tilraun til að skilgreina hlutverk og stöðu lögmanna í nútímalýðræðis- og réttarríki en skortur á slíkri skilgreiningu leiðir að mínu viti til þess að markmiðið eða tilgangurinn með frv. verður óljós og ómarkviss. Að sönnu mál rekja endurskoðun laga um lögmenn til þeirra réttarfarsbreytinga sem gerðar hafa verið hér á landi síðustu árin. En það eitt svarar þó ekki ýmsum þeim grundvallarspurningum sem rísa við endurskoðunina.

Það sem að mínu viti vantar í þetta í ljósi þeirra gríðarlegu breytinga í mannréttindaviðhorfum bæði hér á landi og um heim allan er að lögmenn eru óaðskiljanlegur hluti dómstóla. Þeir eru óaðskiljanlegur hluti þess að dómstólar geti starfað í réttarríki. Því tel ég mjög mikilvægt að í lögum um lögmenn sé reynt að skilgreina og skýra eins og kostur er hlutverk og stöðu lögmanna í nútímalýðræðis- og réttarríki. Því miður er það ekki reynt í þessu frv. og tel ég það vera mikinn löst því slík skilgreining er mjög nauðsynleg.

[12:00]

Það er nauðsynlegt að taka fram í þessu sambandi að staða lögmannastéttarinnar er ekki vegna hagsmuna lögmannanna sjálfra, heldur vegna þess hlutverks sem þeir hafa í réttarkerfinu fyrir starfsemi dómstólanna og þess trausts sem nauðsynlegt er að þjóðfélagsþegnar beri til dómgæslunnar í landinu. Og því vaknar sú spurning sem ég reyndi að fá svar við í andsvari við hæstv. dómsmrh. áðan, hvers vegna þetta aga- og eftirlitshlutverk sé nauðsynlegt. Hvers vegna þarf að hafa eftirlit með lögmönnum í störfum þeirra og veita þeim sérstakt aðhald umfram það sem almennt gengur og gerist hjá starfsgreinum og fagfélögum sem gera ákveðna kröfu til félagsmanna sinna, til forsvaranlegra rækslustarfa félagsmanna og háttsemi? Tæplega er það vegna þess að lögmenn séu eitthvað verri menn en aðrir og tæplega er það vegna starfa lögmanna utan réttar. Það þykir mér vægast sagt ólíklegt, nema e.t.v. á mjög þröngu sviði, þ.e. almenn ráðgjöf og þjónusta til viðskiptamanna þeirra og gæsla hagsmuna viðskiptamanna. Ef svo væri talið ætti jafnframt, samræmis vegna og jafnræðis, að gera kröfu um sérstakt eftirlit með öðrum lögfræðingum en lögmönnum sem veita lögfræðilega þjónustu og ráðgjöf, oft í beinni samkeppni við lögmenn. Jafnframt ætti þetta eftirlit að ná til allra þeirra sem ekki hafa lögfræðimenntun en sem telja sig þess umkomna að veita lögfræðilega ráðgjöf á einn eða annan hátt. Þannig ætti þetta eftirlit m.a. að ná til endurskoðenda, viðskiptafræðinga, verkfræðinga og jafnvel sálfræðinga, að því marki sem í störfum þeirra er falin lögfræðileg þjónusta.

Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á hvert hlutverk lögmanna er og leyfi mér þar að vitna í grg. hæstv. dómsmrh. fyrir hönd íslenska ríkisins, til mannréttindanefndar í Strassborg, í kærumálinu nr. 22/103/93, þar sem komist er svo að orði, með leyfi forseta: ,,Störf lögmanna eru órjúfanlegur þáttur af dómgæslunni í landinu.`` Og enn fremur: ,,Lögmenn gegna lykilhlutverki í þeirri starfsemi sem fram fer fyrir dómstólum.`` Þessi orð endurspegla almenna skoðun bæði hérlendis og erlendis um mikilvægi þáttar lögmanna í réttarkerfinu. Svo mikilvægur hefur þessi þáttur lögmanna verið fyrir starfsemi dómstólanna og þróun réttarins að lögmönnum hefur víða verið veittur einkaréttur til málflutnings fyrir dómstólum, þar á meðal hér á landi.

Það sem ég er að gagnrýna hvað varðar það að dómsmrh. sjálfur fái eftirlit með lögmönnum er einkanlega tvennt. Annars vegar það að í sakamálum þar sem lögmenn fá hlutverk verjenda hlýtur að teljast óeðlilegt að stjórnvöld og handhafi framkvæmdarvalds hafi ákvörðunarvald um það hvort lögmenn séu sviptir réttindum sínum eða hvort þeir fái þau. Það eru að mörgu leyti óeðlileg afskipti af lögmönnum að þetta eftirlits- og agavald sé komið í hendur ráðherra og má í því sambandi vitna í hæstaréttardóm frá 18. maí 1995 í hinu svokallaða dómarafulltrúamáli. En þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Dómsmálaráðherra hefur formlega heimild til að afturkalla löggildingu þeirra, [þ.e. dómarafulltrúanna] og víkja þeim úr starfi án þess að bera það undir dómstóla og framkvæmdarvaldið getur með áhrifum sínum og ráðstöfunum bundið enda á ráðningu þeirra á skömmum tíma. Verður því að fallast á það að staða dómarafulltrúa, eins og henni er nú komið, uppfylli ekki grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvaldsins, svo sem þær verða skýrðar með hliðsjón af 1. mgr. 6. greinar mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæða og óvilhalla dómara, til þess að þeir geti í eigin nafni og á eigin ábyrgð farið með þau dómstörf sem lýst er í bréfi dómsmálaráðuneytis hér að framan.`` Með öðrum orðum, virðulegi forseti, það eitt að staða dómarafulltrúa er ekki tryggari en raun ber vitni gerir það að verkum að þeir eru ekki taldir hafa nægilega trygga stöðu til þess að um sjálfstæða og óvilhalla dómara sé að ræða. Ég vil meina að lögmenn og hlutverk þeirra séu órjúfanlegur þáttur af starfsemi dómstóla. Og því held ég að margt sé sammerkt með þeim viðhorfum sem þarna birtast og því hlutverki sem lögmönnum er falið, að þeir þurfi ekki að sæta því að eiga það undir framkvæmdarvaldið, eiga það undir hæstv. dómsmrh., sem ég er ekki að bera upp á að muni svipta menn réttindum í tíma og ótíma, heldur hitt að það eitt að þessi staða sé uppi er óásættanleg.

Hæstv. dómsmrh. vitnaði í framsöguræðu sinni, sem því miður var allt of stutt og langt frá því að vera nægjanlega ítarleg, til einhverra annarra landa um hvernig málinu væri þar fyrir komið. Hann tók reyndar aðeins Noreg í því sambandi og nefndi Danmörku og Svíþjóð. En þar og víðast hvar annars staðar er þessu aga- og eftirlitsvaldi, sem ég tel reyndar að sé nauðsynlegt, að hluta til komið hjá lögmönnum sjálfum sökum þeirrar stöðu sem þeir eru í. Þeir eru órjúfanlegur hluti dómstólanna og starfsemi þeirra. Og vegna þess hlutverks er talið mjög óeðlilegt að framkvæmdarvaldið fari með þetta vald. Og ég get vitnað til nokkurra landa í þessu sambandi. Í Noregi reyndar, sem hæstv. dómsmrh. vitnaði til, er eftirlits- og agavaldið að hluta til innan norska lögmannafélagsins, og víðast hvar annars staðar í löndum innan EES er þetta eftirlit að einhverju leyti hjá lögmönnum sjálfum. Það er þó alveg hárrétt hjá hæstv. dómsmrh. að það er að mörgu leyti óeðlilegt að það sé alfarið þar og í því sambandi hafa t.d. Danir farið þá leið að setja á fót einhvers konar siðanefnd sem neytendur hafa sína fulltrúa í. Ég teldi það miklum mun eðlilegri vinnubrögð heldur en þau að þetta sé alfarið á höndum dómsmrh. með einhvers konar viðkomu í lögmannaráði sem er dómsmrh. til aðstoðar og hefur umsagnarrétt í málinu.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, langar mig að fjalla örlítið um afnám skylduaðildar lögmanna að Lögmannafélaginu. Sýnt hefur verið fram á að það fer ekki gegn félagafrelsi mannréttindasáttamála Evrópu að skylda menn til aðildar félögum eins og þeim sjálfstæðu félögum sem er falið einhvers konar stjórnsýsluhlutverk. En þrátt fyrir það er í frv. kveðið á um að lögmannfélag skuli vera til og það hafi ákveðið hlutverk, eins og fram kemur í 5. gr. frv. En þrátt fyrir að Lögmannafélagið hafi ákveðið hlutverk gagnvart dómstólum og stjórnvöldum er ekki skylduaðild að því og í þessu hljóta að felast vissar mótsagnir. Því það er með öðrum orðum verið að skylda lögmenn til að hafa með sér félag með því heiti, og þá væntanlega til aðildar að því. Og ef ekki er lengur skylda að vera í þessu félagi, sem hefur ákveðið hlutverk, þá hlýtur að vakna spurningin um hvað gerist ef enginn er í félaginu. Hvað ef enginn lögmaður vill vera í þessu félagi? Hefur það samt áfram það hlutverk að koma fram fyrir hönd félagsins gagnvart dómstólum og stjórnvöldum, setja siðareglur fyrir lögmenn o.s.frv.? Það felast því í þessu vissar mótsagnir sem er mjög erfitt að sjá að geti gengið upp. Því held ég að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, að skoða mjög ítarlega það ákvæði í frv. um að ekki skuli vera skylduaðild að félaginu.

Eins og ég nefndi áðan þá er gert ráð fyrir því í frv. að Lögmannafélag Íslands setji siðareglur fyrir lögmenn að fenginni staðfestingu dómsmrh. á þeim að hluta eða öllu leyti. Þær eiga að gilda um alla lögmenn án tillits til þess hvort þeir eru félagsmenn eður ei, en virðast lögmenn utan félagsins þurfa að sæta lögbundnu forræði þess. Hér skal ekki fjallað um hversu óeðlilegt það er að stjórnvöld staðfesti siðareglur tiltekinnar starfsgreinar en slíkt fyrirkomulag virðist brýnt brot gegn yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um hlutverk lögmanna. Ef lögmönnum er frjálst að stofna með sér félag, verður þessum félögum þá einnig frjálst, og ég spyr hæstv. dómsmrh., að setja félagsmönnum sínum eigin siðareglur með sérstöku aga- og eftirlitsvaldi stjórnar eða siðanefndar innan hvers félags? Slíkt fyrirkomulag er a.m.k. ekki bannað samkvæmt frv. en gæti valdið ruglingi og truflað dómstóla.

Virðulegi forseti. Ég hef hér lítillega fjallað um tvö atriði sem helst hafa valdið ágreiningi í frv. Niðurstaða mín er sú að viðhalda eigi skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands og halda eigi í aga- og eftirlitsvald með lögmönnum innan félagsins, hvort tveggja þó með nokkrum breytingum frá því fyrirkomulagi sem nú gildir þannig að eftirtalin markmið náist:

Að viðhalda sjálfstæði stéttarinnar gagnvart opinberu valdi og treysta stöðu hennar sem órjúfanlegs hluta af dómgæslunni í landinu.

Að tryggja samræmt aga- og eftirlitsvald með lögmönnum.

Að uppfylla skyldur sem ríkið hefur tekið á sig með staðfestingu alþjóðlegra sáttmála um mannréttindi.

Mér virðist, virðulegi forseti, að það hafi kannski ráðið um of í huga hæstv. dómsmrh. að núverandi lög um málflytjendur eru orðin gömul og það eitt hafi kannski um of rekið á eftir breytingum. Því er hér í raun og veru ekki um neinar grundvallarbreytingar að ræða. Þetta er meira tæknilegt en því miður, að minni hyggju, oft á tíðum ekki nægjanlega markvissar eða skilgreindar breytingar. Því þrátt fyrir það og þrátt fyrir hvað um lögmenn er sagt, þá eru þeir órjúfanlegur hluti af dómskerfinu í landinu, órjúfanlegur hluti af því að við höldum hér uppi réttarríki og órjúfanlegur hluti af því að einstaklingarnir geta haldið uppi vörnum og haldið fram sínum réttindum. Því er gríðarlega mikilvægt að lögmenn njóti sjálfstæðis og að hér á landi sé sjálfstæð lögmannastétt. Það er að mínu viti eitt af stóru atriðunum í því að við getum byggt hér öflugt réttarríki.