Umboðsmaður Alþingis

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 12:44:01 (3473)

1997-02-13 12:44:01# 121. lþ. 70.10 fundur 244. mál: #A umboðsmaður Alþingis# (heildarlög) frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[12:44]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa yfir ánægju minni með þetta frv. og að það skuli vera fram komið. Því verður að öllum líkindum vísað til hv. allshn. þar sem ég á sæti og hef ég tækifæri til að fjalla um það frekar þar.

Hér er um það að ræða að störf umboðsmanns Alþingis eins og þau hafa verið verði rýmkuð og taki einnig á þeim stjórnvaldsaðgerðum sem sveitarfélög framkvæma þannig að þeir sem þeim þurfa að lúta eigi möguleika á að bera sín mál upp við hlutlausan aðila. Það má kannski segja að um tvennt hafi verið að ræða í sambandi við það mál þegar svo mörg verkefni hafa verið færð yfir til sveitarfélaganna og raun ber vitni, og allar líkur á að verði áframhald á því.

[12:45]

Annars vegar stóðum við frammi fyrir því að útvíkka starfssvið umboðsmanns Alþingis eða þá að stofna nýtt embætti sem mundi þá vera embætti umboðsmanns sveitarfélaga. Ég álít að rétt hafi verið að fara þessa leið frekar, ekki síst vegna þess að sú reynsla sem við höfum af störfum umboðsmanns Alþingis frá árinu 1987 er ákaflega góð og ríkir mikill friður um það embætti þannig að ég tel það vera af hinu góða að það embætti taki á þessum nýju verkefnum. Eins og kemur fram í grg. hlýtur þetta að hafa í för með sér að verkefnum muni fjölga nokkuð sem umboðsmaður þarf að fjalla um og úrskurða um þannig að mér sýnist að ekki verði hjá því komist að auka fjárveitingar til embættisins. Ég vil þá gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort hann sjái fyrir sér að þetta máli verði leyst á nokkurn annan hátt en þann þar sem verkefnum mun fjölga.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, er þetta mál sem verður fjallað um í hv. allshn. að öllum líkindum og ég vildi bara koma hér upp til þess að lýsa stuðningi við málið. Það er bara eitt atriði sem ég hef örlitlar efasemdir um, sem verður þá fjallað um í nefndinni, og það kemur fram í 1. gr. þar sem segir að Alþingi kjósi umboðsmann Alþingis til fjögurra ára. Ég velti því fyrir mér hvort réttara sé að hafa þetta til fimm ára eins og almennt er innan stjórnsýslunnar en það tel ég vera mál sem hv. allshn. muni fjalla um.