Umboðsmaður Alþingis

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 12:47:12 (3474)

1997-02-13 12:47:12# 121. lþ. 70.10 fundur 244. mál: #A umboðsmaður Alþingis# (heildarlög) frv., Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[12:47]

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir við frv. Aðeins örfá orð í tilefni þess sem hér hefur komið fram hjá tveimur hv. þm. Fyrst það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi um tímamörk, hvort ástæða væri til að setja í frv. og lögin tímamörk um svör þeirra stofnana sem umboðsmaður beinir spurningum til. Mér sýnist að slíkt komi alveg til greina og vænti þess að hv. allshn. taki það til sérstakrar athugunar. Ég nefni líka í þessu sambandi að það kann að vera spurning um tímamörk hvenær umboðsmaður á að ljúka afgreiðslu máls. Ég þekki kvartanir vegna þess, ekki á umboðsmann sjálfan heldur þá sem gegnt hafa störfum hans þegar hann hefur vikið sæti og eru auðvitað í öðrum störfum. Það er spurning hvort á að setja tímamörk á afgreiðslu mála hjá embættinu líka. Þetta tel ég rétt að hv. allshn. athugi.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi hugsanlega fjölgun verkefna hjá umboðsmanni. Það er rétt að búast má við að verkefnum fjölgi eitthvað en það er afar erfitt að áætla það að því er umboðsmaður segir. Fjárveitingin til embættisins núna 1997 er álitin duga fyrir auknum verkefnum sem kunna að koma þetta árið eftir samþykkt frv., ef það verður samþykkt, sem ég að sjálfsögðu vona. En það er nokkuð erfitt að áætla hver aukning viðfangsefnanna kann að verða.

Um ákvæði 1. gr. í frv. að umboðsmaður skuli kosinn til fjögurra ára tel ég mjög eðlilegt að allshn. taki það líka til sérstakrar umfjöllunar með hliðsjón af ákvæðum nýrra laga, um fimm ára embættistíma hinna ýmsu embættismanna ríkisins. Ég vil þó segja að mér finnst ekkert sjálfgefið að það sama skuli gilda um umboðsmann eða ríkisendurskoðanda, sem eru embættismenn stofnana sem heyra beint undir Alþingi. Mér finnst ekkert endilega felast í því, að þótt fimm árin séu ákveðin hjá framkvæmdarvaldinu, að þá gildi það sama fyrir embættismenn stofnana Alþingis. En ég lít ekki á það sem neitt stórmál og tel sjálfsagt að hv. allshn. fjalli alveg sérstaklega um það.