Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:43:09 (3478)

1997-02-13 13:43:09# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:43]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur átt sér stað mikill fjölskylduharmleikur sem öll þjóðin hefur fylgst með. Hún hefur reyndar fylgst með fleiri slíkum harmleikjum í gegnum þekkt mál sem við höfum sótt á erlendum vettvangi.

Ágreiningur í barnaverndarmálum sem þessum er yfirleitt mjög viðkvæmur og virðist oft sem mannréttindi séu fótum troðin ef skoðað er frá sjónarmiði annars aðilans, þess sem tapar í málinu, sem alltaf er annar hvor. Ég tel að mjög athyglisvert sé, ef Haag-samningurinn er skoðaður, sem Ísland lögfesti 27. des. 1995, að það megi að mörgu leyti réttlæta aðgerðir stjórnvalda með hliðsjón af honum og í rauninni ef litið er á þann samning og barnaverndarlögin, 56. gr. barnaverndarlaganna, þá er hægt að finna að mínu mati lagabókstaf fyrir þessum aðgerðum. Það sem ég vil helst gagnrýna er hvernig gengið var að lítilli fjögurra ára stúlku í ókunnu landi og hún tekin inn á ókunnugt heimili. En það á sér þó stoð í þessum samningi og ef ég skoða nánar 12. gr. laga nr. 160/1995 þá stendur m.a. að heimilt sé að synja móttökustjórnvaldinu, dómsmrn. í þessu tilfelli, að barnið verði flutt á brott ef barnið hefur verið meira en ár hjá viðkomandi fólki og mér sýnist að það sé í þessu tilfelli. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort það hafi komið til álita að gera það.

[13:45]

Einnig er varað við því í 4. tölulið 12. gr. laga nr. 160/1995 að barn sé tekið frá viðkomandi fólki ef það stríðir gegn grundvallarreglum hér á landi um verndun mannréttinda. Mér virðist að skilja megi aðganginn að Hanes-hjónunum þannig að troðið hafi verið á mannréttindum þeirra og spyr hvort það hafi komið til tals (Forseti hringir.) að taka tillit til þess og heimila að mál þeirra yrði tekið fyrir í Hæstarétti.

Að lokum vil ég taka undir niðurlagsorðin í dómi Hæstaréttar sem hér voru lesin áðan og spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig hann túlkar þau. Er ekki Hæstiréttur að skensa dómsmrn. þrátt fyrir þær lagaheimildir sem ég tel mig finna fyrir þessari aðgerð?