Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:51:20 (3481)

1997-02-13 13:51:20# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:51]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í dómi Hæstaréttar í máli Rannsóknarlögreglu ríkisins gegn Hanes-hjónunum er að finna áfellisdóm yfir dóms- og kirkjumrn. Raunar má segja að framferði ráðuneytisins sé vítt af æðsta dómstóli landsins. En í honum segir svo m.a., með leyfi forseta:

,,Með þeirri ákvörðun sem áður er getið svipti ráðuneytið varnaraðila í reynd rétti þeirra til að leggja réttarágreining sinn og sóknaraðila undir dóm Hæstaréttar. Ákvörðun ráðuneytisins um að ráðstafa því sem hald var lagt á samkvæmt hinum kærða úrskurði átti sér hvorki stoð í X. kafla laga nr. 19/1991 né annars staðar í lögum. Með henni voru höfð afskipti af máli sem að öðrum kosti hefði verið skorið úr með dómi innan fárra daga.``

Hæstiréttur Íslands komst ekki hjá því að vísa málinu frá þar sem eins og segir í dómnum: ,,... er ljóst að ástand, sem leiddi af hinum kærða úrskurði er þegar um garð gengið.`` Þau hjónin nutu sem sé ekki þeirra mannréttinda sem þau áttu kröfu á hér á landi. Dómsmrn. hafði tekið málin í sínar hendur og í raun svipt þau þeirri réttarvernd er þau áttu skýlausan rétt á sem búsett hér á landi. Hvers vegna þetta óðagot? Hvers vegna þessa hnjáliðamýkt, herra forseti, jafnvel þótt stórveldin Bandaríkin og Unsolved Mysteries eigi í hlut? Er kannski hugsanlegt að pottur hér á landi sé víðar brotinn en í stærðfræði og raungreinum? Eru e.t.v. mannréttindi hér á landi ekki eins bjargtraust og við vildum gjarnan trúa? Eða eigum við aðeins að líta á þessi brigð dóms- og kirkjumrn. sem ,,unsolved mysteries``?