Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 14:29:35 (3491)

1997-02-13 14:29:35# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[14:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er merkilegt mál á ferðinni sem er frv. um Ríkisendurskoðun sem ástæða er til að þakka hæstv. forseta þingsins og forsn. fyrir að hafa haft frumkvæði að. Ég vil hér í andsvari aðeins koma að einu atriði sem er ákvæði 9. gr. varðandi umhverfisendurskoðun en það tel ég að sé eitthvert merkasta nýmæli sem hér er að finna. Mér segir svo hugur um að þegar fram líða stundir verði svo metið, ekki ósvipað og var um stjórnsýsluendurskoðun fyrir tíu árum, og þakka fyrir það að þetta nýmæli skuli tekið inn frv. því það var vissulega tímabært að svo væri gert. Þar hafa menn m.a. leitað fanga til nágrannalanda þar sem þetta er orðinn þáttur og sums staðar allgildur þáttur í starfi ríkisendurskoðunar.

Ég hef vakið athygli umhvn. þingsins á þessu ákvæði sem er að finna í frv. og leitað eftir því að nefndin kynni sér þetta málefni og ég vildi nefna það við hæstv. forseta, þann sem mælti fyrir málinu, hvort ekki kæmi til greina að leitað væri umsagnar umhvn. hugsanlega, af hálfu sérnefndar sem fengi þetta mál til meðferðar, þannig að tryggt væri að sjónarmið sem menn hefðu í þessum efnum kæmu þar inn. Þá hef ég aðallega í huga að nefndin setji sig inn í þetta nýmæli til þess að geta haft áhrif á hugsanlega þróun þess á vegum Ríkisendurskoðunar. Hér er eins og fram kom vísað allvíða, m.a. í alþjóðasáttmála, alþjóðasamninga á sviði umhverfismála fyrir utan hvaðeina sem snýr að opinberum málefnum og einkaréttaraðilum í þessu samhengi og þetta er vissulega gott ákvæði og tímabært og ég þakka fyrir það.