Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 14:57:17 (3498)

1997-02-13 14:57:17# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[14:57]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins svo við skiljum hvert annað. Í grg. með 9. gr. er talað um umhverfisendurskoðun. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að baki þessari heimild býr sama hugsun og að baki heimildum stofnunarinnar til þess að meta árangur af starfi ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Hér er verið að bregðast við örri þróun nýrrar greinar á sviði endurskoðunar, hinnar svokölluðu umhverfisendurskoðunar. Segja má að umhverfisendurskoðun felist í því að endurskoða og kanna áhrifin af starfsemi, stefnu og rekstri stofnana og fyrirtækja á umhverfið`` ... o.s.frv.

Nú hefur verið mikil umræða um umhverfismál í nokkuð ákveðnum skilningi sem snýst jú fyrst og fremst um verndun náttúrunnar og varnir gegn mengun og þess háttar. Þarna sýnist mér í grg. eiginlega orðið umhverfisendurskoðun notað í mjög víðum tilgangi. Ég held að þetta geti verið dálítið villandi ef umhverfisendurskoðun felur í sér að hún taki til nær allra stjórnunarþátta í samfélaginu, sem er ekki nema gott eitt um að segja. En ég hef grun um að fólk sem les þetta, eins og ég gerði þegar ég kom til þings í morgun, átti sig ekki strax á því hvað þetta þýðir, ,,hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála`` eins og segir í sjálfri lagagreininni. Því held ég að við verðum aðeins að skýra þetta betur í meðferð nefndarinnar. Ég spurði reyndar hæstv. forseta: Hvar stendur fyrirtækið ,,við``, fólkið í landinu sem vinnur alla vinnu sem fram fer? Stendur það fyrirtæki innan ramma umhverfisendurskoðunar eða utan hans? Ég held að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að það hlýtur líka að vera efnahagslegt vandamál ef einhverjir hópar samfélagsins, þ.e. einhver hluti af fólkinu í landinu býr við þann kost sem ekki er sæmandi, þá er það auðvitað sameiginlegt fjárhagslegt vandamál.

Þess vegna hlýt ég að spyrja: Getur farið fram umhverfisendurskoðun á fyrirtækinu ,,þjóðfélagið``?