Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 15:00:22 (3499)

1997-02-13 15:00:22# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[15:00]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel þessa umræðu athyglisverða og það er vissulega ástæða til að sú nefnd sem fjallar um þetta mál fari ofan í þessi atriði. Ég á sæti í henni og mun koma þessum umræðum þar til skila. En þegar hins vegar nefnt er fyrirtækið þjóðfélagið þá er nú svo að ég tel að það séu víðtækar heimildir í lögunum um Ríkisendurskoðun einmitt til þess að meta aðgerðir og þá sérstaklega fjárhagslegar aðgerðir stjórnvalda á þjóðfélagið sjálft. Ég tel að í lögunum um endurskoðun ríkisreiknings og endurskoðun ýmissa þátta rekstrar ríkisins séu möguleikar fyrir stofnunina að gera sér grein fyrir áhrifum hinna ýmsu aðgerða á ýmsa þjóðfélagshópa. Ég hygg að það muni vera svo en það er sjálfsagt og nefndinni skylt að taka þessi atriði til umræðu. Sem nefndarmaður mun ég gera mitt til þess að það verði gert.