Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 15:02:21 (3500)

1997-02-13 15:02:21# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[15:02]

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég las sama kafla upp úr grg. og hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Ég segi aðeins í þessu sambandi --- ég nefndi það hér og ítreka að vel kann að vera að það mætti bæta þarna inn orðunum ,,til dæmis`` á sviði umhverfismála, í staðinn fyrir að vera eingöngu með þau. Og ég nefndi að mér þætti rétt að nefndin sem fær málið til meðferðar athugaði þetta sérstaklega. En ég segi enn og aftur að menn mega heldur ekki oftúlka það sem hér er verið að fara fram á. Þetta nær í sjálfu sér ekki til annars en umhverfismála eins og það er sett fram í frv. En ef það er vilji til þess að veita Ríkisendurskoðun víðtækari heimildir, eins og t.d. hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir nefndi, að jafnréttismálin yrðu tekin beint inn í lagatexta, þá er það alveg til athugunar. Mér finnst það alveg koma til greina. En ég ítreka að einhvers staðar eru takmörkin og það er nokkuð skýrt í gildandi lögum og í þessu frv. hvað það er sem Ríkisendurskoðun er ætlað að gera. Og þótt Alþingi sem slíkt leggi mikið upp úr starfi Ríkisendurskoðunar og eftirlitshlutverki hennar, þá endurtek ég það að einhvers staðar verða takmörkin að liggja í starfsemi Ríkisendurskoðunar og það er skýrt í þessu frv. hvert á að vera hlutverk hennar. En ég segi enn og aftur --- ef það er vilji til þess hjá nefndinni og Alþingi að útfæra þetta hlutverk Ríkisendurskoðunar þá þurfum við að ræða það alveg sérstaklega. Hér hafa komið fram ákveðnar ábendingar sem verða auðvitað teknar til umfjöllunar í nefndinni.