Uppgjör á jarðræktarstyrkjum

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:06:44 (3506)

1997-02-17 15:06:44# 121. lþ. 71.1 fundur 192#B uppgjör á jarðræktarstyrkjum# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbrh. um hvað líði uppgjöri á skuldum jarðræktarfamlaga við bændur. Með breytingum á árinu 1989 á jarðræktarlögum frá 1987, og reyndar með frekari breytingum síðar, var ætlunin að afnema sjálfvirkni að þessu leyti og færa þetta yfir á það form að bændur þyrftu að sækja um og fá staðfestingu á því að þeir fengju úthlutað styrkjum. Í tengslum við þetta var á árunum í kringum 1990 og þar á eftir gerður upp mikill skuldahali sem myndast hafði upp á yfir hálfan milljarð kr. á þágildandi verðlagi. En nú virðist svo óhönduglega hafa tekist til í framhaldinu að eftir sem áður hefur tekið að myndast skuld við bændur sem líta svo á að þeir eigi skýlausan rétt á styrkjum samkvæmt jarðræktarlögum og hafa í höndum reyndar álit frá umboðsmanni Alþingis þar um. Skuld sem ráðunautar hafa tekið saman varðandi framkvæmdir frá sl. árum er líklega komin á þriðja hundrað millj. kr. Engar fjárveitingar hafa verið á tvennum eða þrennum síðustu fjárlögum til að greiða inn á þessar skuldir fyrir utan aukafjárveitingu í fjáraukalögum síðast á árinu 1994. Þetta er ófremdarástand og auðvitað engum til sóma að hafa hlutina svona. Það hlýtur að þurfa að taka á þessu máli.

Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. hvað líði því að koma þessum málum á hreint, undirbúa uppgjör við bændur á þessum skuldum, og þá eftir atvikum gera enn eina tilraun til að breyta jarðræktarlögunum þannig að ekki ríki það ófremdar- eða réttarástand að menn eigi rétt á framlögum án þess að fyrir því sé séð að fjárveitingar séu til að standa við þær skuldbindingar ríkisins. Ég tek það fram að ég er ekki á nokkurn hátt að taka afstöðu til þess í sjálfu sér hvað eigi að verða með þessa styrki í framtíðinni, hvort þeir eigi rétt á sér eða ekki við nútímaaðstæður. Hitt er ljóst að það verður að greiða þá styrki sem menn eiga rétt á samkvæmt lögum og það er engum til sóma að láta þá hlaðast upp.