Uppgjör á jarðræktarstyrkjum

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:09:12 (3507)

1997-02-17 15:09:12# 121. lþ. 71.1 fundur 192#B uppgjör á jarðræktarstyrkjum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. þm. beinir til mín fyrirspurnum um uppgjör á hugsanlegum skuldum sem hafa orðið til á árunum eftir 1990. Ég segi hugsanlega vegna þess að í lögum er skýrt kveðið á um hvernig eigi að standa að þessum styrkjum, þ.e. hvernig umsóknir um þá voru lagðar fyrir Búnaðarfélagið á sínum tíma, nú Bændasamtök Íslands, sem síðan gera ráðuneyti grein fyrir þessum umsóknum. Þar á eftir kveða fjárlög á um það hvað megi ráðast í af styrkhæfum framkvæmdum og uppgjör kemur seinast. En ég hygg að því miður hafi þetta ferli ekki alltaf verið svona. Það sé þess vegna ef til vill ekki alveg ljóst hversu mikið af þessum framkvæmdum sem menn telja að séu styrkhæfar eru það í raun ef farið er ofan í þetta lagaferli nákvæmlega. En það er rétt sem hv. þm. nefnir að það er talað um að skuldir kunni að vera allt að 200 millj. kr. og með þessum fyrirvörum sem ég hef nefnt um framkvæmdina og umboðsmaður Alþingis hefur greint frá að hann telji að þarna eigi menn inni, en þó með þeim fyrirvara að menn geti ekki gert kröfur um endurgreiðslu nema samkvæmt því sem kveðið er á um í fjárlögum hverju sinni. Þannig að hann hefur þann fyrirvara í álitsgjörð sinni alveg skýran.

Nú er í gangi endurskoðun á lögum um jarðrækt og búfjárrækt eða á jarðræktar- og búfjárræktarlögum eins og þau eru stundum kölluð. Í tengslum við þá endurskoðun, sem ég vona að hægt verði m.a. að gera grein fyrir á búnaðarþingi sem hefst um næstu helgi, er einnig rætt um að fara ofan í saumana á þessum skuldum, hvað af þeim kunni að vera réttmætar kröfur og hvað ekki, ef ekki hefur verið staðið rétt að málunum. Sú vinna er einnig í gangi í tengslum við þessa endurskoðun og auðvitað í endurskoðun væntanlega kveðið á um hvað síðan á að styrkja og hvernig. Þannig verður einu sinni enn reynt að koma því skýrt fyrir í lögum hvernig menn vilja að þessu standa.