Þjónusta við einhverf börn

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:17:49 (3512)

1997-02-17 15:17:49# 121. lþ. 71.1 fundur 193#B þjónusta við einhverf börn# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég heyri að ráðherrann hefur skilning á því hversu brýnt er að bæta úr þjónustu við þessa einstaklinga, þ.e. einhverf börn og aðstandendur þeirra. Reyndar kom fram í fjárlagaumræðunni að verið væri að koma á fót sambýlinu sem er af hinu góða. En aftur á móti er greinilegt að sú fjárveiting sem er ætluð til þessa fagteymis dugir alls ekki til og ég vil minna á að fagteymi var starfandi á vegum barna- og unglingageðdeildarinnar, sem reyndar heyrði undir heilbrrn. Þeir töldu sig ekki geta sinnt þessum hópi vegna fjárskorts þannig að mjög mikilvægt er að fjárveiting komi til svo að hægt verði að sinna þessum hópi og hægt verði að setja fagteymi á laggirnar, sem ég heyri að hæstv. ráðherra hefur hug á að gera. En það vantar greinilega fjármagn og það fé sem ætlað var í þetta á fjárlögum dugir aðeins fyrir einu stöðugildi og það er náttúrlega lítið fagteymi ef það er aðeins ein manneskja því formaður nefndarinnar sem vann að þessu telur að það þurfi a.m.k. þriggja til fimm manna fagteymi til að sinna þessum málaflokki.