Málefni Silfurlax

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:32:16 (3523)

1997-02-17 15:32:16# 121. lþ. 71.1 fundur 195#B málefni Silfurlax# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hér er verið að vitna til máls sem ég því miður hef ekki haldbærar upplýsingar um nákvæmlega á þessari stundu, ég verð að afla þeirra upplýsinga og koma þeim til skila til hv. þm. Fyrirtækið Silfurlax fékk ríkis\-ábyrgð á sínum tíma fyrir 50 millj. kr. Ástæðan var m.a. sú að þetta fyrirtæki hafði ekki fengið lán úr ábyrgðardeild eins og önnur fyrirtæki í sömu grein. Erlendir aðilar lögðu fram hundruð milljóna í fyrirtækið og talið var að þarna væri um þróunarverkefni að ræða sem við gætum ekki horft fram hjá að gæfi okkur miklar upplýsingar um hafbeit en þetta fyrirtæki var sérstakt hafbeitarfyrirtæki.

Því miður veit ég ekki nákvæmlega hver staða málsins er í dag en tryggingar ríkisins fólust m.a. í því að eignast aðbúnað og einnig skil sem kæmu í stöðuna. Þau ættu að koma á þessu ári eins og á síðasta ári ef starfseminni er hætt. Ég get því miður hvorki svarað þeirri spurningu hvaða áhrif þetta hefur á veiði laxveiðibænda við Breiðafjörð né heldur sagt frá því hver staða málsins er nákvæmlega, en ég skal afla þeirrar vitneskju og koma henni til skila til hv. þingmanna.