Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:58:14 (3526)

1997-02-17 15:58:14# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að ráðherrann sé inni í þingsalnum svo að unnt sé að veita andsvar við ræðu hans að honum áheyrandi.

(Forseti (ÓE): Ráðherrann er í salnum.)

Ég þakka fyrir það. Mig langar til að bera tvær fyrirspurnir til hæstv. ráðherra eftir þessa framsögu sem lýsti stefnu ríkisstjórnarinnar í vegamálum, en gerði ekki grein fyrir tveimur atriðum sem nauðsynlegt er að hafa upplýsingar um áður en haldið er af stað í umræðuna. Það fyrra er: Hvenær er þess að vænta að ríkisstjórnin leggi fram langtímaáætlun í vegagerð? Hún hefur verið boðuð á þessu þingi og mun væntanlega ná til ársins 2008, þ.e. ná yfir tólf ár í stað fjögurra ára eins og þessi áætlun sem fyrir liggur núna nær til. Það skiptir auðvitað máli við mat á vegáætlun fyrir næstu fjögur ár að fyrir liggi líka áform og helst samþykki þingsins fyrir stefnumarkandi áætlun fyrir næstu átta árin þar á eftir.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki stefnumarkandi ákvörðun af hálfu ráðherra og ríkisstjórninnar það sem fram kom í máli hans að framkvæmd er boðuð á næsta ári en er ekki á vegáætlun heldur er því lýst yfir að hún verði fjármögnuð með lánsfé sem síðan verði greitt að mestu leyti eftir að áætlunartímabili þessarar vegáætlunar lýkur, þ.e. fram til ársins 2003. Er ég þá að tala um helminginn af vegaframkvæmdum vegna Hvalfjarðarganga. Má þá ekki skilja það svo, herra forseti, að ríkisstjórnin sé tilbúin til þess að aðrar framkvæmdir verði settar í gang t.d. á næsta ári og þær fjármagnaðar með lánsfé, eins og þessi framkvæmd, og það lánsfé síðan endurgreitt á næstu árum eftir að þessu vegáætlunartímabili lýkur árið 2000?