Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:00:44 (3527)

1997-02-17 16:00:44# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:00]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Á vegum Vegagerðarinnar og samgrn. er nú unnið að gerð þáltill. um langtímaáætlun í vegagerð. Ég vonast til að hægt verði að leggja hana fyrir Alþingi á næstu vikum, svo ég sé nógu rúmur í yfirlýsingunni. Hitt er rétt hjá hv. þm. að hér er gert ráð fyrir að 400 millj. kr. vegna Hvalfjarðarganga verði endurgreiddar af vegáætlun árin 1999--2003. Ástæðan fyrir því að lagt er til að fara í þær greiðslur með þessum hætti eru þær annars vegar að við urðum fyrir óvæntum útgjöldum vegna Skeiðarársands og hins vegar reyndust jarðgöng á Vestfjörðum dýrari en reiknað var með og sömuleiðis erum við nokkuð á eftir í sambandi við greiðslur um lagningu vegar og brúar yfir Gilsfjörð þannig að við gerum ráð fyrir að til endurgreiðslu á lánunum vegna Hvalfjarðar komi eftir að öðrum greiðslum er lokið, þ.e. eftir að greiðslum á láninu til höfuðborgarinnar, skuldabréfinu til höfuðborgarinnar, eftir að greiðslum vegna Vestfjarðaganga, Gilsfjarðar og Skeiðarársands lýkur. Að vísu er gert ráð fyrir að Skeiðarársandur greiðist árið 1999 eða sama árið og greiðslur hefjast vegna Hvalfjarðarganga. Þetta er gert til að dreifa byrðunum.