Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:20:24 (3534)

1997-02-17 16:20:24# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með það þegar framkvæmdarvaldið, ríkisstjórn og hið háa Alþingi vilja hlusta á heimamenn og sveitarstjórnarmenn því að það er reynsla mín að þeir þekkja auðvitað gjörla til og langbest. Betur væri að oftar væri hlustað á þá þegar um er að ræða að raða málum í forgangsröð og mjakast nú sitthvað í þá átt.

Það sem ég átti auðvitað við var, eins og ég gat um í ræðu minni, að menn hafa gefið sér það fyrir fram að hér sé þvílík þensla í gangi á suðvesturhorninu og þar með talið á Suðurnesjum að brýna nauðsyn bæri til þess að draga úr fjárframlögum til nauðsynlegra framkvæmda og þar á meðal hafnarframkvæmda og vegaframkvæmda á þessu svæði. Það er bara alröng niðurstaða að minni hyggju. Ég hygg að atvinnuleysisástandið á þessu svæði segi og svari öllu um þau efni. Það þarf ekkert að skýra það nánar. Þannig að það eru vond samskipti ríkissjóðs og sveitarfélaga sem byggjast á því að stilla sveitarfélögum upp við vegg þannig að þau þurfi að velja eins og hér um ræðir. Það ber auðvitað brýna nauðsyn til þess, og við hér á hinu háa Alþingi höfum sett lög þess efnis, að búið skuli að einsetja alla skóla árið 2001 eða 2002 og tilteknu fé frá ríkinu hefur verið varið til þess að liðka fyrir um þá þróun. Það er því mjög erfið aðstaða sem þessi sveitarfélög eru sett í, að þurfa að fara í brýna vegagerð eða hafnargerð til þess að bjarga hugsanlega mannslífum á kostnað þess að byggja skóla, allt vegna þess að hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórn dettur í hug að halda því fram að hér sé þensla.

Síðan með jarðgöngin og það verður örstutt. Ég sagði það eitt að yfirlýsingar ráðherrans, orð hans hér staðfestu það, og gefa til kynna að hann hefur lagt að jöfnu fyrirhugaðar og áformaðar framkvæmdir á Norðurlandi og Austurlandi. Það er auðvitað í fullkominni andstöðu við fyrri yfirlýsingar þess efnis og ég hygg að hv. þm. Egill Jónsson geti tekið undir með mér í þeim efnum. Er hann sammála því að hæstv. samgrh. jafnsetji þessar tvær stórframkvæmdir með því móti sem hann gerði hér áðan?