Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:51:26 (3542)

1997-02-17 16:51:26# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:51]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er glöggur eins og þekkt er og alveg hárrétt sem hann sagði. Það er auðvitað nauðsynlegt að átta sig á því hvað var að gerast á árunum 1993, 1994 og 1995. Þá stóðu þáverandi stjórnarflokkar að því að reyna að styrkja atvinnulífið í landinu og leggja fjármuni til þeirra framkvæmda sem mestan arð bera. Niðurstaðan var sú að við Guðmundur Árni Stefánsson urðum m.a. sammála um að leggja bæri aukna fjármuni til vegagerðar. Þess vegna voru þær upphæðir svo háar þau árin. En það varð líka annar árangur af samstarfi þeirra flokka sem þá voru í stjórn. Hann var sá að atvinnulífið í landinu fór að braggast og það dró úr atvinnuleysi og ekki var talin sérstök ástæða til að leggja fjármuni ríkisins umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum til að efla atvinnulífið. Það er nú þannig að ef allar áætlanir ganga upp hvað varðar stóriðjuframkvæmdir þá væri frekar ástæða til að draga úr framkvæmdum á vegum hins opinbera en auka þær. Þetta er nú kannski skýringin á því sem fram kom og réttilega af hálfu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. En auðvitað væri æskilegt að auka fjármuni til vegagerðar. Ég vænti þess að með auknum tekjum ríkissjóðs takist okkur að ná mikilvægum áföngum m.a. við að bæta þjóðvegakerfið, stofnvegakerfið og vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu sem ég veit að hv. þm. ber mjög fyrir brjósti.