Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:58:14 (3545)

1997-02-17 16:58:14# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist og geri athugasemdir við meðferð þingmannsins á tölum og framlögum til vegamála á tilteknu árabili sem hann nefndi. Það kom fram að á síðasta kjörtímabili hefði verið varið 3.000 millj. kr. meira til vegamála en markaðir tekjustofnar segðu til um. Það kann að vera, ég hef ekki lagt þær tölur saman og hef þær ekki við höndina. En ég minni á að á síðasta kjörtímabili var nýtt verkefni fært undir þessa tekjustofna sem áður var fjármagnað sérstaklega úr ríkissjóði, sem er flóabátar og ferjur. Á þessum þremur árum á síðasta kjörtímabili hefur það líklega verið um 1.200--1.500 millj. kr. sem var tekið af vegafé í þennan nýja útgjaldaflokk auk þess sem greitt var í ríkissjóð af tekjum vegáætlunar. Ég er því ekki viss um að svo mikið sé eftir af þessum 3.000 milljónum. Svo ber þess að geta að þær eru fengnar með því að framkvæma á síðasta kjörtímabili fyrir peninga sem lagðir eru til á þessu kjörtímabili og eru í skuld og ef maður skoðar yfirstandandi tímabil 1997--2000, sem hér er til umræðu, þá kemur í ljós að menn eiga eftir að borga nærri 600 milljónir af vegafé fyrir framkvæmdir síðasta kjörtímabils. Þar að auki er tekið af mörkuðum tekjustofnum 2.500 milljónir á þessu áætlunartímabili og fært í ríkissjóð. Þá eru menn búnir að skerða framkvæmdagetu þess fjár sem rennur til vegamála um 3.000 milljónir á þessum fjórum árum, 1997---2000. Í þriðja lagi eru um 1.800 millj. kr. teknar af vegafé til flóa- og ferjubáta og er þá upphæðin komin upp í nærri 5 milljarða kr. sem verið er að hafa af vegafé umfram það sem áður gilti fyrir árið 1991. Loks vil ég benda mönnum á að markaðar tekjur, tekjustofnar Vegagerðarinnar samkvæmt upplýsingum í fskj. á bls. 27 eru 2.000 millj. kr. meiri en hér er lagt upp sem tekjur til vegamála á þessu áætlunartímabili, þannig að það vantar 7.000 millj. kr. að til vegamála verði varið á þessum fjórum árum en tekjustofnarnir skila.