Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:03:43 (3547)

1997-02-17 17:03:43# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. Sturla Böðvarsson var að finna þeirri ríkisstjórn til foráttu, sem sat á árunum 1988--1991, að það hefðu vantað 500 millj. kr. upp á að framlög til vegamála á því tímabili væru jafnhá og markaðir tekjustofnar segðu til um. Í þessari tillögu sem við erum að ræða er ástandið ekki 500 millj. kr. heldur miklu, miklu verra eins og ég rakti. Þar eru teknar 2.500 millj. kr. og færðar í ríkissjóð. Það eru teknar 540 millj. kr. til að borga framkvæmdir sem búnar eru og kallaðar eru skuld við ríkissjóð. Þannig að samtals eru 3 milljarðar kr. færðir í ríkissjóð út úr vegafénu. Í þriðja lagi eru 1.800 millj. kr. færðar sem kostnaður á vegafé, þ.e. ferjur og flóabáta sem áður voru greiddir úr ríkissjóði. Það má vel vera að eðlilegt sé að hafa ferjur og flóabáta undir vegafé en það á ekki að færa þann útgjaldalið á vegafé án þess að færa tekjur á móti. Það er það sem gert var. Vegasjóður fékk útgjöldin en engar tekjur. Þannig að bara þessir þrír liðir skerða framkvæmdagetu til vegamála á næstu fjórum árum um 5.000 millj. kr. Það er tíu sinnum hærri fjárhæð en hv. þm. Sturla Böðvarsson var að nefna og álasa þáv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki staðið sig nógu vel. Þó stendur hann sig tíu sinnum verr og er stoltur af. Ég segi nú bara litlu verður Vöggur feginn.