Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:36:17 (3560)

1997-02-17 17:36:17# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlaut auðvitað að víkja máli mínu að borgarstjóra úr því að hv. þm. kaus að draga hann inn í umræðurnar. Mér finnst það líka alveg sjálfsagt til að borgarstjórinn njóti sannmælis, að fram komi hvaða skoðanir og hvaða innlegg hann hefur haft til þessara mála. Ég hygg að hann, eins og aðrir stjórnmálamenn, sé maður fyrir sínum skoðunum og sinni þögn. Ég vil endilega leyfa honum að koma fram í því ljósi sem hann er í sínum stjórnmálaafskiptum. Ég biðst auðvitað ekki afsökunar á því að tala af réttsýni um borgarstjórann.

Ég hygg að það sé líka alveg ljóst að við töluðum um það á ráðstefnu sem var haldin í Borgartúni á síðasta kjörtímabili og aftur var vitnað til í Hlégarði, þá var talað um þær fjárhæðir sem þyrfti til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu svo vel væri fyrir málum séð. Þá var verið að tala um 900 millj. kr. til 1 milljarð. Það getur vel verið að starfsmenn Reykjavíkurborgar hafi skipt um skoðun síðan. Það getur vel verið. En þetta var þeirra upplegg í málinu, það var það. Það skiptir raunar ekki máli hversu oft þetta er endurtekið ef þeir hafi breytt um skoðun síðar. Það sýnir einungis að þeir gera nú strangari kröfur en áður. Svona lá málið fyrir og svona liggur það fyrir. Ef við berum saman þau framlög sem eru til höfuðborgarsvæðisins samkvæmt vegáætlun og þá þörf sem sveitarstjórnarmenn hér hafa lýst þá sé mjög vel fyrir þessu svæði séð og betur en nokkru sinni fyrr, ég fullyrði það, betur en nokkru sinni fyrr.