Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:42:31 (3564)

1997-02-17 17:42:31# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:42]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig hafa lagt mitt af mörkum til að hægt væri að fara út í þessar framkvæmdir og semja um niðurskurð á móti með sveitarfélögunum. Þessi hugmynd var borin undir sveitarstjórnir, bæjarstjóra í sveitarfélögum hér í kring og í þeirra huga var þetta mjög ásættanleg leið. Þá er ekki bara verið að tala um framkvæmdir í Reykjavík heldur einnig í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að ég á erfitt með að sjá að þessar 250--300 millj. kr. sem um er rætt eigi eingöngu að fara til framkvæmda í Reykjavík. Ef það er meiningin að borgarverkfræðingur einn ráði því hvernig á að úthluta þessu þá er náttúrlega ljóst hvert þetta fer. En ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinast um þetta og komast að samkomulagi um að þetta verði svona þá er í sjálfu sér ekkert við því að segja. En þeir vita það vel, sveitarstjórnarmenn hér í kring, að um það var rætt að þetta mundi skiptast með samkomulagi sveitarstjórnarmanna og ráðherra og að um þetta yrði full sátt.