Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:01:44 (3569)

1997-02-17 18:01:44# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan höfum við staðið frammi fyrir því á undanförnum árum að ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla og nauðsynlegt að ná honum niður með einhverju móti. Það hefur m.a. verið gert með því að skera niður vegáætlun og taka hluta af því fé, sem kemur út úr sköttum til Vegasjóðs, til að greiða niður halla ríkissjóðs. Núna hefur tekist að greiða niður þennan halla. Og ég er að vonast til þess eins og ég sagði áðan að vegafé gangi óskert til vegamála á næstu árum og það verði til þess að við getum farið út í þær framkvæmdir sem við vitum að bíða og við sjáum ekki fyrir okkur að geti beðið öllu lengur.

Það var samkomulag um það fyrir áramót, vegna sérstakrar yfirlýsingar og bréfs sem kom frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, að reyna að mæta því með einhverju móti. Og hæstv. samgrh. lýsti því hér við fjárlagaumræðuna að hann væri tilbúinn til þess að semja við sveitarfélögin um að ef þau drægju úr framkvæmdum þá kæmust vegaframkvæmdir, sem hefðu annars ekki orðið, á dagskrá. Í umræðunni sem fór fram vegna þeirrar sérstöku yfirlýsingar var talað um framkvæmdir sem ég minntist á hér áðan, þar á meðal tvöföldun Reykjanesbrautar frá Breiðholti í Fífuhvamm. Það er ekkert gruggugt við þetta fyrirkomulag. Það er einungis verið að koma málum áfram sem annars hefðu ekki komist á dagskrá. Ég stend alveg fyllilega keikur undir því að hafa lagt mitt af mörkum og ég vonast til þess að sveitarfélögin sjái þörfina fyrir þetta. Þetta er að sjálfsögðu sameiginlegt verkefni og sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga.