Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:05:54 (3571)

1997-02-17 18:05:54# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég tala um að komast á dagskrá þá á ég við að það komist á dagskrá þannig að viðkomandi verkefni verði á framkvæmdaáætlun. Það er mikill munur á því hvort meiri hluti þingsins er að reyna að koma einhverjum framkvæmdum á eða hvort minni hlutinn er með einhverjar tillögur. Minni hlutinn getur náttúrlega verið með allar sínar tillögur en það er svo spurning um það hvort þær komast nokkurn tímann á annað stig en á dagskrá. Og það sem ég er að meina með dagskrá í þessu tilfelli er að framkvæmdin komist af stað. (Gripið fram í: Ef þeir fá stuðning frá meiri hlutanum.) Ef þeir fá stuðning frá meiri hlutanum að sjálfsögðu. En hv. þm. er í minni hluta og hann hlýtur að átta sig á því. (Gripið fram í: Það má byrja að flytja tillögur.)

Hvaða verkefni bæjarstjórn Kópavogs og Hafnarfjarðar ættu að skera niður? Að sjálfsögðu er það þeirra höfuðverkur ef maður mætti orða það þannig. Ég vil bara benda á það að Grindvíkingar lögðu það mikla áherslu á að koma hafnamálunum af stað hjá sér að þeir skáru niður skólaframkvæmdir í fullri sátt við sitt fólk. Þeir áttu ekki í miklum vandræðum með að skera niður 130 milljónir eftir því sem mér er sagt. Þannig að ég á ekki von á því að stór sveitarfélög eins og Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær ættu að vera í vandræðum með að finna 100 milljónir til að geta farið af stað í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.