Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:33:22 (3583)

1997-02-17 18:33:22# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég byggi auðvitað mál mitt á þeirri veg\-áætlun sem hér liggur fyrir og þeim niðurskurði sem gert er ráð fyrir þar. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi í hyggju að breyta þar út af og veita e.t.v. aukið fé til framkvæmda í vegagerð. Það hefur komið fram að hann er með eitthvað uppi í erminni í þeim efnum og ætlar að kynna það fyrir ríkisstjórninni á morgun og hefur verið í viðræðum við sveitarfélög og Reykjavíkurborg, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, um að vera með einhverja samninga. En auðvitað getur maður ekki annað en byggt á því sem maður hefur hér og hefur verið lagt fyrir og þar er greinilegt að það á að vera niðurskurður og auðvitað verður niðurskurður til þess að dregið er úr framkvæmdum. Það er alveg ljóst. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir hlutum sem maður veit ekki um eins og hvað ráðherra ætlar sér að gera, hvort hann ætlar að láta þessar tölur standa sem hann leggur hér fram eða hvort hann hyggst e.t.v. setja meira fé til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Það breytir auðvitað myndinni.