Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:48:35 (3588)

1997-02-17 18:48:35# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:48]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Málið liggur þannig fyrir að Reykjavíkurflugvöllur er enn ekki tilbúinn fyrir útboð, svo það sé nú alveg ljóst. Það standa vonir til þess og ég veit ekki betur en að rétt nú um þessi mánaðamót liggi fyrir samkomulag milli Reykjavíkurborgar og samgönguyfirvalda um það hvernig staðið skuli að framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli.

Ég vil á hinn bóginn segja hv. þm. það, ef hann vill rifja upp hvernig stendur á því að ekki er búið að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll, að sú ákvörðun var tekin fyrir átta árum. Hún var tekin þegar Alþingi komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að víkja Reykjavíkurflugvelli til hliðar til þess að hægt yrði að ráðast í byggingu varaflugvallar á Egilsstöðum, en hann kostaði á annan milljarð kr., 1,2 milljarða eða eitthvað því um líkt, og það var auðvitað algjörlega borin von að unnt yrði að byggja varaflugvöll á Egilsstöðum samtímis því sem Reykjavíkurflugvölur yrði endurbyggður. Þegar sú ákvörðun var tekin var raunar alls ekki hægt að kenna mér um þann gang mála því að þá hafði ég annað slagið orð á því að nær væri að velta því fyrir sér hvort möguleiki væri á að varaflugvöllur kæmi í Aðaldal og byggður úr Mannvirkjasjóði NATO. En sá samgrh. sem þá var vildi leggja mikið á sig til þess að til slíks kæmi ekki þannig að það er síður en svo að ákvörðunin um að fresta Reykjavíkurflugvelli hafi verið tekin í síðustu viku.