Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:50:34 (3589)

1997-02-17 18:50:34# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:50]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna þeirra orða hæstv. samgrh. um að Reykjavíkurflugvöllur sé ekki tilbúinn fyrir útboð, þá lítur nú út fyrir að hann verði tilbúinn fyrir útboð á þessu ári. Og ég minni hæstv. samgrh. á að í samþykktri flugmálaáætlun fyrir árið í ár er gert ráð fyrir að farið verði í þessar framkvæmdir. Það eru ætlaðar til þess 127 millj. kr. þannig að hann getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð að hafa lagt fram þessa flugmálaáætlun og hún hafi verið samþykkt af hv. þingmönnum. Ég stend við hvert orð sem ég hef sagt í þessum efnum og tel að það hefði þá átt að vera búið að sjá það áður en farið var í þær viðgerðir sem unnar voru í fyrra og láta menn vita að ekki stæði til að fara í endurbyggingarnar á vellinum því þá hefði verið staðið öðruvísi að framkvæmdum, þá hefði verið unnið öðruvísi, því að menn voru að gera bráðabirgðaúrbætur vegna þess að þeir töldu að það ætti að fara í gagngerar endurbætur á þessu ári.