Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:55:24 (3592)

1997-02-17 18:55:24# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:55]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Flugmálaáætlun er plagg sem hefur ekki síður en vegáætlun verið mikið og umdeilt og hefur það verið nokkuð árvisst að menn hafa deilt um hvort Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjárhagsvandi hennar ætti að koma til umræðu og til afgreiðslu við þessa umræðu og hefur mönnum sýnst sitt hvað eins og við er að búast. En staðreyndin er sú að meginhlutinn af öllum tekjum flugmálaáætlunar kemur vegna lendingargjalda frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða vegna lendinga á Keflavíkurflugvelli. Það er því ekki nema lítið brot af því sem þarf til þess að koma til móts við vanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar að settar eru 60 millj. í þá flugstöð og í rauninni er kannski ekki verið að mæta þar erfiðleikum vegna fjármögnunar þessarar flugstöðvar heldur til að breyta innritunarformi í flugstöðinni sem að hluta til gæti tengst Schengen-samkomulaginu sem er í burðarliðnum.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur liðið fyrir það á undanförnum árum eða allt frá því að hún var byggð hversu fjármögnunin hefur gengið illa og gjöld sem innheimt eru af leiguliðum, sem þar eru staddir, hafa verið svo há að þarna þrífst ekki nokkur rekstur nema ríkið standi að honum þannig að þetta fer úr einum vasanum í annan. Ég verð því að lýsa yfir vonbrigðum mínum með hvað lítið er tekið af fjármunum flugmálaáætlunar til að mæta þeim gríðarlega vanda sem þarna er og hefur staðið, eins og ég sagði áðan, öllum verslunarrekstri á þessu svæði fyrir þrifum nema rekstri Fríhafnarinnar sem hefur skilað miklum hagnaði inn í ríkissjóð en sá hagnaður hefur ekki farið til að greiða niður þessar skuldbindingar sem eru á fimmta milljarð í dag.

Í mínum huga hefur umræðan um Reykjavíkurflugvöll verið nokkuð sérkennileg og hefur komið upp oftar en einu sinni áhugi yfirvalda í Reykjavík að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur í tví- eða þrígang í Morgunblaðinu lýst því yfir að þessi flugvöllur væri fyrir skipulaginu í Reykjavík og þarna væru dýrmætar lóðir sem í rauninni væru miklu dýrmætari sem byggingarlóðir en undir flugvöll. Þessi hv. borgarfulltrúi hefur nú orðið að éta þetta ofan í sig að hluta til vegna þrýstings, enda gera menn sér grein fyrir að þarna er um atvinnuspursmál að ræða og auðvitað ekki til þess fallið að auka fylgi Reykjavíkurlistans að leggja niður þennan flugvöll.

Í mínum huga er þetta fyrst og fremst spurning um hagkvæmni. Að setja 1,3 milljarða í að byggja upp Reykjavíkurflugvöll á sama tíma og borgaryfirvöld eru að gera ráð fyrir að loka ákveðnum brautum til að geta komið fyrir nýrri flugstöð finnst mér alveg hróplegt og í mikilli andstöðu við þær hugmyndir sem eru uppi, að þetta eigi að vera flugvöllur til framtíðar. Ég held að það sé engin spurning að allar aðgerðir sem koma frá Reykjavíkurborg lúti að því að þessi flugvöllur sé víkjandi. Eftir þeim viðbrögðum sem manni sýnast koma frá borgaryfirvöldum verður sá flugvöllur ekki þarna nema í nokkur ár til viðbótar. Þess vegna hef ég lýst þeirri skoðun minni að í rauninni væri miklu eðlilegra að nota þá peninga, sem nú á að setja til að endurbæta Reykjavíkurflugvöll, til að gera samgöngur greiðari til Keflavíkurflugvallar þannig að allt flug sem þarna fer fram í dag verði í gegnum Keflavíkurflugvöll, enda er sá flugvöllur í raun eini flugvöllurinn sem við getum sagt að sé sólarhringsflugvöllur sem geti þjónað hvers konar samgöngum allan sólarhringinn árið um kring.

Ýmislegt er nú að gerast í flugmálum sem bendir til að það sé einmitt þvert á þessa skoðun mína. Það er það að Flugfélag Íslands, hið nýstofnaða félag, er að taka yfir flug Grænlandsflugs til landsins. Grænlandsflug hefur að mestu verið í gegnum Keflavíkurflugvöll en með sameiningu og yfirtöku þeirra á Grænlandsflugi mun það væntanlega flytjast til Reykjavíkurflugvallar, á yfirhlaðinn flugvöll sem þar að auki eftir lýsingum hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er ekki til þess fallinn af öryggisástæðum að taka yfirleitt við neinu flugi. Ég verð því að lýsa yfir mikilli undrun minni með það hvernig þetta er að þróast og vona að umræður um hagkvæmnisbreytingar, breytingar í þá átt að við rekum flugsamgöngur á sem hagkvæmastan hátt, komist á hærra stig en þær hafa verið. Það er ekkert tiltökumál fyrir hvern sem er að keyra á milli Keflavíkurflugvallar og til Reykjavíkur ef samgöngur eru bættar. Eins og ég hef lýst áður er þessi leið ekki nema í um 20 mínútna fjarlægð þegar við hugsum um miðpunkt Reykjavíkur eða Breiðholtið og þar um kring.

Vandamálið í kringum þetta allt saman er í rauninni sú skipan í stjórnkerfi landsins að samgöngur eru ekki á einni hendi eins og flugsamgöngur. Þær eru annars vegar í höndum utanrrh. sem fer með flugsamgöngur um Keflavíkurflugvöll meðan samgrh. fer með flugsamgöngur að öðru leyti. Af þeirri ástæðu einni hefur ekki gengið að auka samgöngurnar til Keflavíkur vegna þess að verið er að taka ákveðna bita, ákveðna tekjustofna og ákveðin áhrif sem samgrn. hefur í dag og flytja þá yfir til utanrrn. Ýmsar leiðir hafa komið fram til þess að létta flugi af Reykjavíkurflugvelli, m.a. að flytja allt ferjuflug frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar. Það hefur heldur ekki tekist nægjanlega vel vegna þess að kerfið sér ekki hag sínum borgið innan þeirra breytinga. Allt þetta lýtur að sama brunni, það vinnur hver á móti öðrum og við náum ekki þeirri hagkvæmni í fluginu sem hægt væri að ná ef menn litu á samgöngurnar í einni heild.