Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:12:13 (3598)

1997-02-17 19:12:13# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:12]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að tíunda þær mínútur sem fara í að keyra frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur. Ég hef margoft sagt það og hef mælt að það tekur nákvæmlega 20 mínútur að keyra á löglegum hraða, ef við mundum geta tvöfaldað Reykjanesbrautina, frá Keflavíkurflugvelli til Breiðholts sem er miðja höfuðborgarsvæðisins. Það tekur álíka langan tíma að fara frá Breiðholtinu og niður á Reykjavíkurflugvöll eins og hann er í dag þannig að í sjálfu sér er þetta ekkert ósambærilegt í viðmiðun. (Gripið fram í.) Það þarf nú ekki þyrlu til þannig að þú getur bara verið á þínum bragga, hv. þm.

Það að engar áætlanir séu um að Grænlandsflug leggist af --- mínar upplýsingar eru þær reyndar að Flugfélag Íslands muni yfirtaka það og þar sem flugfélagið mun vera með höfuðstöðvar sínar á Reykjavíkurflugvelli, eftir því sem mér er sagt og ef það er ekki rétt hjá mér þá fagna ég því reyndar. En mér er sagt að umræður séu í gangi um að þetta flug sem tengist Grænlandi og Íslandi flytjist með Flugfélagi Íslands til Reykjavíkurflugvallar. Ég veit að fyrir þá þjónustuaðila sem eru suður frá er þetta mikið áfall og þá sérstaklega yfir vetrartímann þar sem ýmsir þjónustuaðilar hafa haft tekjur af því að sinna þessum flugáhöfnum og því fólki sem hefur nýtt sér flug um Keflavíkurflugvöll. En ég fagna því ef það er ekki á döfinni og vona að hæstv. ráðherra fari með rétt mál í því efni.