Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:14:28 (3599)

1997-02-17 19:14:28# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við þá fullyrðingu þingmannsins að forseti borgarstjórnar hafi ítrekað sett fram þá skoðun að færa eigi allt innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli. Eftir því sem ég best veit um það mál, þá er þetta röng staðhæfing af hálfu þingmannsins og ástæða til að bera hana til baka. Það sem forseti borgarstjórnar hefur nefnt í þessu sambandi er hvort ekki væri rétt að flytja frá Reykjavíkurflugvelli allt flug annað en innanlandsflug, þ.e. ferjuflug, æfingaflug og annað þess háttar sem er um 80% af öllu lendingum og flugtökum á vellinum. Þetta horfir því allt öðruvísi við mér en hv. þm. og ég skora á hv. þm. að leiðrétta mál sitt í þessu efni.

Ég hef líka efasemdir um þá skoðun hans eða réttmæti hennar að flytja innanlandsflugið allt til Keflavíkur. Það kann að vera ávinningur að því að einhverju leyti vegna samnýtingar á flugbrautum að unnt verði að komast hjá því að leggja í kostnað við nýjar flugbrautir í Reykjavík, en athuga þarf líka hvort ekki leiðir af því kostnað á öðrum sviðum eins og við flugstöðina, við flugbúnað og annan leiðsögubúnað sem þarf til að stjórna flugi. Um það er ekki vitað og þarf auðvitað að athuga það mál. Þá lengir þetta innanlandsflugið fyrir alla aðila, bæði Vestfirði, Norðurland og Austurland, gerir flugið lengra, dýrara og farmiðaverðið hærra, auk þess sem þetta er aukakostnaður fyrir farþegana því að þeir þurfa síðan að koma sér frá Keflavík hingað til höfuðborgarsvæðisins því það eru sárafáir farþegar í innanlandsflugi sem eru á leiðinni til og frá Suðurnesjum. Mér sýnist flest mæla heldur gegn því að fara þá leið sem hv. þm. nefnir. Ég held að menn ættu fremur að skoða flugstæði á Suðurlandi eða á Vesturlandi ef menn ætla að leita að öðrum flugvelli á þessu svæði.