Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:22:06 (3603)

1997-02-17 19:22:06# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. birtist okkur hér í allt öðru gervi en við eigum að venjast og miklu óviðfelldnara heldur en hann yfirleitt sést í. Hann kemur hingað í gervi hins svala töffara sem slettir í góm þegar öryggismál flugvallarins í Reykjavík ber á góma. Það virðist engu máli skipta fyrir hæstv. samgrh. þó fyrir liggi að niðurskurðurinn sem hann eigin hendi hefur beitt sér fyrir varðandi flugvöllinn í Reykjavík leiði til þess að öryggismálin verða fyrir vikið miklu verri og lakari heldur en hægt er að sætta sig við. Þetta eru ekki einungis staðhæfingar sem koma úr munni hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, heldur liggur það fyrir að trúnaðarmenn hæstv. samgrh., flugráð, hefur gert sérstaka bókun þar sem í fyrsta lagi er mótmælt harkalega niðurskurði sem hæstv. ráðherra áformar og í öðru lagi er bent á að frá sjónarmiði öryggis sé þetta ekki ásættanlegt. Og hver eru viðbrögð hæstv. samgrh.? Þau eru engin. Hann hefur í engu svarað þeim staðhæfingum sem komu fram hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi öryggismálin.

Ég verð að segja það, herra forseti, að það er ekki hægt fyrir einn ráðherra, jafnvel þó að hann sé vel virtur og hæstv., að koma hingað og gera því skóna að allt sé í stakasta lagi þegar þeir menn sem eiga að vera ráðgjafar hans lögum samkvæmt telja að potturinn sé ekki bara brotinn heldur verði hann mölbrotinn ef svo horfir sem virðist nú vera ætlan hæstv. ráðherra. Ég get ekki annað en spurt hæstv. ráðherra: Hvaða úttekt hefur hann fyrir sér í öryggismálum flugvallarins sem bendir til þess að þetta sé allt í lagi? Eða hefur hann kannski ekkert fyrir sér í þessum málum? Er þetta bara handahófskenndur niðurskurður sem eins og dettur af himnum ofan? Það er ekki hægt að bjóða upp á að þegar það liggur fyrir að flugráð mótmælir þessu af öryggisástæðum þá komi ráðherrann og segir: Þetta skiptir ekki máli. Því það er það sem hæstv. ráðherra gerir efnislega með því að virða hv. þm. ekki svars í þessum efnum.

Öðruvísi mér áður brá. Hæstv. samgrh. hefur jafnan verið einn þeirra þingmanna sem hafa gengið hvað varfærnislegast um gáttir og reynt að ástunda hófsemi í hvívetna. Ég verð hins vegar að segja að svona stíll angar af óhófi og er ekki hinn hefðbundi taktur hæstv. samgrh. En auðvitað er það svo að hann er beygður í þessu máli. Það er ekki bara þetta mál. Það eru líka í samgöngumálum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu sem hann hefur látið teyma sig til óhæfuverka. Við skulum rifja það upp, herra forseti.

Það voru bjartsýnir menn sem héldu blaðamannafund rétt fyrir síðustu kosningar. Það voru formaður og varaformaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og fjmrh. Þeir sögðu léttir á brún að þeir ætluðu sér ekki að ástunda yfirboð eða mikil kosningaloforð. Þess í stað ætluðu þeir einungis að gefa eitt loforð og þetta loforð var að auka framlög til samgöngubóta. Hæstv. samgrh. hefur tekið að sér hlutverk niðurskurðarmannsins. Hann hefur tekið að sér að vera maðurinn sem brýtur eina kosningaloforð Sjálfstfl. Ég verð að segja eftir þessa umræðu, eftir mál hæstv. ráðherra og hv. þm. Kristjáns Pálssonar, að Reykvíkingar þurfa ekki lengur að ganga gruflandi að því viðmóti sem þeir mæta hjá Sjálfstfl. Það á a.m.k. eftir að koma sjálfstæðismaður upp í þessari umræðu og lýsa því yfir að hann sé ekki sammála þessu viðhorfi sem hér hefur komið fram. Hvað er það sem hér er að gerast?

Hæstv. samgrh. sker niður við trog þá áætlun sem áður var búið að samþykkja. Þær 117 millj. kr. sem áttu að fara í samgöngubætur á Reykjavíkurflugvelli eru skornar niður um 90 millj. kr. En hann segir: Það verður ekki til langframa. Hann stefnir að því að hefja þessar endurbætur á næsta ári. En hann er ekki viss.

Hv. þm. Kristján Pálsson, sem er ekki bara venjulegur þingmaður í þessari umræðu heldur einn af trúnaðarmönnum Sjálfstfl. í samgöngumálum vegna þess að hann á sæti í þeirri nefnd, er alveg klár á því hvað er að gerast. Hann sagði hérna áðan að auðvitað lægi fyrir að það væri verið að skera niður Reykjavíkurflugvöll skref fyrir skref. Og hann lýsti því yfir og þá væntanlega fyrir hönd síns flokks að það væri einungis spurning um tíma hvenær flugvöllurinn yrði lagður niður. (KPál: Það voru borgaryfirvöldin.) Þetta voru óbreytt orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Hann kemur hér sem fulltrúi Sjálfstfl. í samgn. og hann lýsir því yfir að það sé allljóst að flugvöllurinn verði lagður niður og það sé einungis spurning um tíma. Ef ekki koma fram harkalegar neitanir á þessu frá Sjálfstfl., þá hljótum við að líta svo á að sá niðurskurður sem er núna í gangi af hálfu hæstv. samgrh. sé liður í því að grafa smám saman undan starfsemi flugvallarins, að mola undirstöðuna hægt og hægt.

Hæstv. samgrh. er ekki með góða samvisku þegar hann kemur hingað í ræðustól eins og sést glöggt á því að málflutningur hans er bæði loðinn og veikur. Hann segir í fyrsta lagi, eða ég skildi mál hans þannig, að það skipti ekki máli þó að þessi niðurskurður kæmi fram núna vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur væri hvort eð er ekki tilbúinn fyrir útboð. Og það mátti skilja á honum að það væri vegna einhvers konar slaklegrar frammistöðu borgarstjórnar Reykjavíkur. Ef það er rangt hjá mér, þá leiðréttir hann það hér á eftir. En í hinu orðinu segir hann að sá undirbúningur muni liggja fyrir um næstu mánaðamót þannig að þetta eru rök sem ekki er hægt að taka gild.

Sama gildir líka um þær röksemdir sem hann flytur og tengjast fyrirhugaðri þenslu á Reykjavíkursvæðinu. Er það ekki hans ríkisstjórn sem hefur hvað eftir annað komið fram fyrir skjöldu og reynt á síðustu vikum að telja mönnum trú um að hið fyrirhugaða góðæri, hinar miklu fyrirhuguðu framkvæmdir, séu einungis fugl í skógi. Það sé ekkert víst með það og þess vegna eigi verkalýðshreyfingin að stilla kröfum sínum í hóf. En núna kemur hann og segir: Vegna þessarar þenslu, sem ríkisstjórnin á öðrum vettvangi er að draga úr, er ekki hægt að fara í þessar framkvæmdir.

Það er rétt að rifja það upp að borgarstjórinn í Reykjavík hefur ekki bara einu sinni heldur a.m.k. tvisvar sinnum komið fram í fjölmiðlum og sagt að ef það blasir við þensla á næstu missirum þannig að hætta verður á að framkvæmdir á Reykjavíkursvæðinu gætu stuðlað að aukinni verðbólgu, þá væri hún fyrir sitt leyti reiðubúin fyrir hönd meiri hlutans sem stýrir Reykjavíkurborg að skoða hvort ekki sé hægt með einhverju móti að draga úr öðrum framkvæmdum borgarinnar. En það liggur alveg fyrir að þetta eru falsrök hjá hæstv. samgrh., bæði þegar hann er að reyna að gera því skóna að meint þensla sé orðin svo mikil að það verði að draga úr samgöngubótum á Reykjavíkurflugvelli og líka þegar hann er að skera niður framlög til mjög mikilvægra samgöngubóta í Ártúnsbrekkunni.

En ég ítreka að lokum spurningu mína frá því áðan: Miðað við þau varnaðarorð sem flugráð hefur flutt Íslendingum með einróma samþykkt sinni, þá spyr ég hæstv. samgrh.: Hvaða skýrslu og úttekt hefur hann um öryggismál flugvallarins sem leyfa honum að koma hingað og tala eins og það sé ekkert að öryggismálum þar?