Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:37:41 (3608)

1997-02-17 19:37:41# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:37]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 15. þm. Reykv. sem hann hefur eftir 10. þm. Reykn. að verið sé að leggja niður Reykjavíkurflugvöll skref fyrir skref og það sé stefna Sjálfstfl., þá vildi ég leiðrétta það. Það er alrangt vegna þess að þetta hefur ekki komið til tals innan þingflokks Sjálfstfl. og það er ekki stefna Sjálfstfl. að leggja niður Reykjavíkurfugvöll.

Það sem hins vegar hefur verið rætt um og hefur komið fram í borgarstjórn er að flytja kennsluflug til Keflavíkurflugvallar. Það höfum við heyrt úr röðum R-listans. Einstaka borgarfulltrúar og forseti borgarstjórnar hefur rætt um að rétt væri að athuga flutning á Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur, en það hefur ekki komið fram sem skoðun eða stefna núverandi meiri hluta borgarstjórnar.

Ég vil aðeins segja líka varðandi framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll að vissulega er það áhyggjuefni að þær skuli dragast enn um eitt ár. Þingflokkur Sjálfstfl. hefur tekið á því máli og hefur fallist á það sem hér hefur verið lagt fram af hálfu samgrh. að búa svo um hnútana að á þessu máli verði tekið af heilum hug.

En ég vil endurtaka það að ég hef a.m.k. ekki orðið var við og ég hef ekki samþykkt það sem þingmaður Reykvíkinga að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður skref fyrir skref, hvað þá að allt flug verði flutt til Keflavíkurflugvallar vegna þess að það væri hið mesta óhagræði fyrir Reykvíkinga og ekki hvað síst fyrir þá sem þurfa að nota völlinn hvað mest, þeir sem eiga brýn erindi til Reykjavíkur.