Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:45:22 (3613)

1997-02-17 19:45:22# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson getur ekki skroppið undir kápulaf forseta borgarstjórnar í þessu máli. Ég er ekki að ræða við Guðrúnu Ágústsdóttur vegna þess að hv. þm. hefur dregið hana inn í umræðuna, þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að forseti borgarstjórnar hefur beitt sér fyrir samþykkt ásamt öðrum fulltrúum Reykjavíkurlistans í borgarstjórn Reykjavíkur um nauðsyn þess að byggja og endurbæta Reykjavíkurflugvöll. Það liggur fyrir, alveg sama hvað haft er eftir henni í einhverjum fjölmiðlum jafnvel þótt það sé Morgunblaðið. Hv. þm. kom hér og talaði langt mál og jafnvel snjallt á köflum um Guðrúnu Ágústsdóttur, forseta borgarstjórnar, og meintar skoðanir hennar. En hvað var það sem hv. þm. gleymdi að nefna í sinni ræðu? Það eru þær skoðanir sem ég hafði eftir honum, hans eigin orð, sem voru hver? Að það væri einungis tímaspursmál hvenær Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður. Að skref fyrir skref væri verið að draga úr starfsemi Reykjavíkurflugvallar. Hvaða stjórnmálaflokki tilheyrir hv. þm. Kristján Pálsson? Sjálfstfl. Hvaða stjórnmálaflokkur ber þar af leiðandi ábyrgð á þeim orðum hans? Sjálfstfl. Staðreyndin er auðvitað sú að hér inni eru tveir menn, sem hafa talað þannig. Og að því er annan þeirra varðar, hv. þm. Kristján Pálsson, þá er ekkert efamál og hann er meira að segja nógu ærlegur til þess að draga enga dul á það að hann vill leggja Reykjavíkurflugvöll niður. En hann virðist sjálfur vera að túlka gerðir hæstv. samgrh. með þeim hætti að í þeim felist sú stefna að verið sé að taka niður Reykjavíkurflugvöll skref fyrir skref, loka honum síðan alveg. Og hæstv. samgrh. á eftir að koma hingað og taka af tvímæli um að þetta sé rangt og hann á eftir að lýsa því yfir að fortakslaust verði eigi síðar en á næsta ári ráðist í þessar endurbætur sem hann illu heilli hefur fallist á að fresta núna en undirstrikar enn og aftur að þeir sem eru óvinir samgöngubóta á Reykjavíkursvæðinu, -- það er bara einn flokkur og það er Sjálfstfl. (Samgrh.: Er þetta ekki svolítið flókið hjá þér?)