Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:48:43 (3615)

1997-02-17 19:48:43# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að í tíð síðasta meiri hluta Sjálfstfl. í Reykjavík var náttúrlega ekkert gert til þess að reyna að byggja upp flugvöllinn. Núna fer Sjálfstfl. með samgrn. og þá blasa við enn frekari niðurstöður. Talsmaður Sjálfstfl. í samgn. hefur komið hingað og lýst yfir þeim vilja sínum að það eigi að loka Reykjavíkurflugvelli, það sé verið að gera það skref fyrir skref. En hann efast um góðan vilja Reykjavíkurlistans í þessu máli.

Herra forseti. Leyfist mér að bera fram eitt vitni í málinu, hæstv. samgrh.? Hann lýsti því yfir að hann hefði átt í viðræðum við borgarstjórann í Reykjavík og það hefði alveg komið skýrt fram hjá henni að hún er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ráðast hið fyrsta í þessar endurbætur. Ætlar hv. þm. að halda því fram að hæstv. samgrh. komi hér upp og bara búi til í hugskoti sínu fundi með borgarstjóranum í Reykjavík? Að sjálfsögðu ekki. Þannig að málflutningur hv. þm. fellur eins og spilaborg um sjálfan sig.