Bókasafnssjóður höfunda

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 13:44:24 (3619)

1997-02-18 13:44:24# 121. lþ. 72.7 fundur 330. mál: #A Bókasafnssjóður höfunda# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[13:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. segir að það frv. sem hér liggi fyrir skýri sig að öllu leyti sjálft. Ég er því ekki fyllilega sammála. Þar eru ýmsir hlutir sem þarf að skýra betur.

Hæstv. ráðherra segir jafnframt að það sé nauðsynlegt að huga að því efni sem hér liggur fyrir í litlu frv. þegar menn taka til afgreiðslu frv. um almenningsbókasöfn og það er alveg rétt. En ég held að það sé ýmislegt fleira sem þarf að huga að. Það þarf líka að huga að þessu máli þegar kemur að afgreiðslu næstu fjárlaga eins og ég reifa hér aðeins á eftir.

Í grundvallaratriðum, herra forseti, tel ég að þetta frv. marki framfaraspor og ég held að það sé þakkarvert að hæstv. ráðherra hefur lagt það fram. Ég held að það sé nauðsynlegt að menntmn. reyni að hraða afgreiðslu þessa máls, en jafnframt eru nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt að nefndin leggi áherslu á að kanna rækilega og helst að breyta. Það eru ýmsir hlutir sem tengjast þessu máli sem hæstv. ráðherra þarf að skýra frekar hér á eftir.

Það er alveg ljóst að með frv. er verið að breyta ýmsum málum til batnaðar. Ég nefni t.d. að núna hefur árlega runnið fjárveiting fyrir verk í Rithöfundasjóð og fyrir þeim sjóði hafa farið þrír menn, þar af tveir tilnefndir af Rithöfundasjóði. Nú gerist það með þessu frv. að það er verið að breyta því hverjir eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum, hinum nýja sjóði sem kemur í staðinn fyrir Rithöfundasjóð. Nú eiga það ekki bara að vera rithöfundar heldur líka þeir sem stunda þýðingar, myndhöfundar og tónskáld og ýmsir aðrir sem eiga höfundarframlag til bóka. Í takt við þetta er í hinum nýja sjóði gert ráð fyrir fimm manna stjórn þar sem fulltrúar fleiri en rithöfunda koma að. Þetta er mjög lofsverð nýbreytni sem ég fagna.

Ég vek hins vegar eftirtekt á því, herra forseti, að í athugasemdum um 4. gr. þessa frv. segir t.d. að leggja eigi áherslu á að fé Bókasafnssjóðs nýtist til stuðnings höfundum í menningarstarfi þeirra. En féð kemur náttúrlega ekki að slíku gagni nema það muni verulega um fjárveitinguna. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að fjármagnið sem verður til úthlutunar á hverju ári verður ákvarðað sérstaklega á fjárlögum hvers árs. Þá var hann nokkuð stoltur yfir því, og sennilega með réttu, að hann hefði náð fram hækkun fyrir næsta ár, 5 millj. kr. hækkun. En við skulum ekki gleyma því þegar við skoðum málið að þessi hækkun verður lítil þegar horft er til þess að rétthafarnir eru núna miklu fleiri en áður. Það eru fleiri sem eiga rétt á að njóta framlags úr sjóðnum heldur en áður. Það eru myndhöfundar, það eru höfundar tónverka, það eru þýðendur og ýmsir aðrir sem eiga framlag í verkum sem eru til útlána í bókasöfnum. Við megum heldur ekki gleyma því að söfnin sem þessi sjóður nær til eru talsvert fleiri en áður. Samkvæmt þessu, herra forseti, hlýtur það að vera réttmætt að fyrst umfangið eykst þá aukist fjárframlagið líka í réttu hlutfalli. Ég held að það hljóti að vera eitt af því sem menntmn. tekur til skoðunar, hvort ekki eigi einhvern veginn að negla þetta niður. Að minnsta kosti verður hæstv. ráðherra að láta það koma fram í þessari umræðu hvort hann sé ekki sammála því að fyrst það eru fleiri sem njóta réttarins til úthlutunar en áður, þá sé nauðsynlegt að hann beiti sér fyrir því að hækkunin verði meiri en sem nemur þessum 5 millj. kr.

Ég vil líka segja það, herra forseti, að ég á afskaplega erfitt með að sætta mig við þá stefnu sem ég vona að séu mistök af hálfu hæstv. menntmrh., en kemur fram í athugasemdum um 5. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta, þegar verið er að ræða um hvernig úthluta skuli styrkjum úr Bókasafnssjóði höfunda:

,,Eðlilegt er að áhersla verði lögð á styrki til höfunda fagurbókmennta.``

Ég er algjörlega ósammála þessu og það sem meira er, hæstv. menntmrh. er líka ósammála þessu vegna þess að við ræddum úthlutanir til listamanna við afgreiðslu síðustu fjárlaga og hæstv. menntmrh. kom einmitt upp og gat þess að það væri nauðsynlegt að efla hlut þeirra sem eru að gefa út fræðirit. Hvers vegna er á hlut þeirra hallað með þessum hætti? Ég get ekki fallist á það, herra forseti, að menntmrh. sé hér að fara gegn því sem er yfirlýst stefna hans úr þessum stóli með þessari yfirlýsingu með því að segja nánast hreint út að þeir sem rita fræðirit og kennslurit eigi ekki að njóta sama réttar og þeir sem skrifa fagurbókmenntir. Við erum öll á bandi fagurbókmenntanna, allir Íslendingar, en við búum í litlu málsamfélagi sem við þurfum að vernda og varðveita. Hvernig gerum við það? Ekki hvað síst með því að efla útgáfu fræðirita á tungu mæðranna og feðranna og hvers kyns kennslugagna. Úti í hinni stóru veröld er markaðurinn allur annar. Þar er markaðurinn sem fræðslu- og kennslurit hafa haslað sér stærri heldur en yfirleitt má segja um markað fyrir fagurbókmenntir. En vegna þess hversu þröngur stakkur er sniðinn okkar litla málsamfélagi þá verðum við að huga sérstaklega að þessu.

Það er lofsvert, herra forseti, að á síðustu árum hafa yfirvöld í vaxandi mæli tekið undir það viðhorf sem ég er að túlka hérna. En mér finnst sem þarna sé um vissa afturför að ræða. Hvernig skiptist þá bókakostur þessara safna sem þetta frv. nær til ef við skoðum það með tilliti til hlutfalls fagurbókmennta og fræðirita? Ef við lítum t.d. bara á ársskýrslu Borgarbókasafns Reykjavíkur þá kemur fram þar að í eigu safnsins eru tæplega 204 þús. skáldrit en það eru 222 þús. rit sem túlka má sem fræðirit eða kennslugögn, fagbækur. Í skólabókasöfnum eru hátt í 600 þús. eintök aðallega fræðirit, uppsláttarrit og námsbækur. Ég held að það væri mikill akkur fyrir Íslendinga að á einhvern hátt væri stuðlað að því að þeim sem skrifa fræðirit verði einhvern veginn ívilnað og örugglega með öðrum hætti heldur en að setja þá hér skör lægra heldur en fagurbókmenntir.

Þess vegna vildi ég, herra forseti, beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar, þegar hann hugsar djúpt eins og honum er lagið, að það sé sanngjarnt að höfundar fræðirita sitji við sama borð og höfundar fagurbókmennta. Ég tel að hæstv. menntmrh. hafi áður talað í þá veru, en það er auðvitað hægt að fletta því upp til að sjá hvað hann sagði þá.