Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 14:49:57 (3625)

1997-02-18 14:49:57# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[14:49]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef setið í heilbr.- og trn. þingsins um nokkurn tíma þar sem hefur verið fjallað um þetta mál áður. Ég vildi aðeins koma inn á það mál í upphafi að það var dálítið annað að hlusta á 18. þm. Reykv. eða 9. þm. Reykn. sem hafði mest allt á hornum sér varðandi þetta frv. En hins vegar var heldur jákvæðari tónn í 18. þm. Reykv.

Það er annars eitt sem ég held að sýni að þingmenn fari nokkuð geyst í málið. Frv. í heild er af hinu góða, og ég held að allir séu sammála um það. Það fer ekki á milli mála. Auðvitað er hér eitt og annað sem betur mætti fara en mér finnst þó að það hafi borið svolítið á því að ræðumenn væru komnir nokkuð lengra en frv. felur í sér, eins og fram kom um 27. gr., t.d. varðandi reglur um sjúk börn. Það er ekki langt síðan þingmenn Reykv. og Reykn. fóru í heimsókn á Landspítalann og skoðuðu þar aðstöðu bæði sjúklinga og lækna. Það vakti athygli hjá þingmönnum sem gáfu sér tíma til þess að fara þangað í desembermánuði sl. hve þröngt er búið að. Og menn gera sér fulla grein fyrir því að t.d. á Landspítalanum er talsvert kraðak, það fer ekkert á milli mála, einkum í sambandi við barnadeildina. Þar er mikið verk sem þarf að vinna. Við gerum okkur fulla grein fyrir því. Þegar er verið að tala um að það eigi að veita foreldrum rétt til þess að vera hjá börnum sínum er átt við það í fyrsta lagi að reyna að búa svo um á spítalanum að foreldrarnir geti verið þar. En nú eru menn farnir að hoppa yfir í það hvernig eigi að greiða það ef fólk kemur utan af landi, hvernig á að borga fólki laun mánuðum saman ef það þarf að vera hér á spítala hjá börnum sínum. Það er ekki verið að tala um það í þessu frv., virðulegi forseti. Það er verið að tala um það hér að búa svo um að foreldrarnir geti verið þar daglangt eða næturlangt hjá börnunum en það er annað mál.