Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 15:38:46 (3635)

1997-02-18 15:38:46# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[15:38]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins að gefnu tilefni síðasta ræðumanns víkja sérstaklega að því sem lýtur að langtímasjúkum börnum. Ég tek alveg undir að það er ákveðinn blettur á heilbrigðisþjónustunni sem vonir standa þó til að verði úr bætt.

Ég sagði áðan að þetta frv. væri fyrst og fremst frv. til laga um réttindi sjúklinga og það er það mál sem við erum að ræða hér. Eins og ég gat um áðan hafa bæði þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness farið og heimsótt Landspítalann og á fæðingardeildinni t.d. býr starfsfólk við mjög þröngan kost, ekki síst ef nýburar þurfa sérstakrar meðhöndlunar við, en þar vinnur fólk í heilbrigðisþjónustunni, eins og síðasti ræðumaður kom inn á áðan, við hreint ótrúlega þröngan kost. Ég tala nú ekki um þegar svo reynt er líka að veita foreldrum einhverja úrlausn þannig að þau geti verið meginhluta dagsins inni á spítalanum með börnum sínum, þá er ekki orðið mikið plássið eftir. Ég tek heils hugar undir það.

Ég vildi svo bara aðeins leiðrétta það sem mér fannst það eiginlega liggja í orðum síðasta ræðumanns að ég hefði talað þannig að ég hefði frekar lítið gert úr þessu heldur en hitt. Ég vildi bara undirstrika það að mér er fullkunnugt um nauðsyn þess að gera bragarbót á og vinna svo að málum að til sóma sé fyrir þessi litlu börn.