Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:11:12 (3654)

1997-02-18 17:11:12# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:11]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Það kemur nú stundum yfir mig að finnast ekki alveg sanngjarnt að hér sitji æ ofan í æ hæstv. heilbr.- og trmrh. og að henni sé ráðist án þess að hæstv. fjmrh. sé nokkurs staðar nærri. Ég held að þetta sé ekki góð staða fyrir hana. En okkur hv. þingmönnum er ekki boðið upp á betra svo það verður að búa við það.

Ég get ekki stillt mig um að bæta aðeins við það sem ég sagði hér áðan. Þannig er mál með vexti að ég sit í tryggingaráði svo að ég er aðeins nálægt þessum málaflokki á þessu kjörtímabili og heldur betur raunar. Það hljómar í eyrum mér eins og lélegur brandari þegar ég heyri hæstv. ráðherra segja hér í ræðustól að miðað sé að því að allir Íslendingar eigi sama aðgang að meðferð á sjúkrastofnunum. Ekki síst er það undarlegt þegar hæstv. ráðherra tilheyrir þeim stjórnmálaflokki íslenskum sem lengst af hefur sótt styrk sinn til landsbyggðarinnar. Það er eins og þetta fólk viti bara ekki nokkurn skapaðan hlut hvernig þetta land er í laginu og þekki ekki þá gróflegu mismunun sem er á aðstöðu Íslendinga til heilbrigðisþjónustu. Fyrir þá sem ekki vita það þá er það þannig að til þess að fá greiðslu fyrir flutning milli sjúkrastofnana og í sjúkrastofnanir og til lækna þurfa menn beinlínis að vera haldnir sjúkdómi sem tryggir að það sé alveg öruggt að þeir þurfi að fara aftur og aftur, og það eru örfáar tegundir sjúkdóma. Þótt maður sé í bráðri lífshættu, og ef það skyldi nú svo heppilega vilja til að það sé hægt að lækna hann í einni ferð, þá eru áhöld um hvort ferðin verður greidd því að maðurinn þarf ekki að fara aftur.

Á sama tíma og verið er að tala um í frv. sem okkur er ætlað að taka alvarlega að sérhver sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu meðferð, þá er Tryggingastofnun ríkisins að setja reglur um þak á hversu margar rannsóknir mega fara fram í landinu, hversu margar aðgerðir sérfræðinga verða greiddar. Það er ekkert verið að sjá til þess að allir fái besta þjónustu. Það er einungis greitt fyrir ákveðinn fjölda og hann er afmarkaður af fjárframlögum til þeirra hluta þannig að hér erum við ekki að segja satt.

Í næstu nágrannalöndum okkar og raunar í Bandaríkjunum líka eru tugir og jafnvel hundruð hámenntaðra lækna og hjúkrunarfólks sem fær ekki að koma heim til Íslands til að vinna vegna þess að það eru ekki tæki og ekki síst vegna þess að þeir sérfræðingar sem fyrir eru vilja ekki fá þá til Íslands.

[17:15]

Ég hlaut nokkur ámæli ýmissa minna flokksmanna fyrir að standa með fyrirtæki sem heitir Læknisfræðileg myndgreining sem keypti upp á eigin spýtur (Gripið fram í.) --- víst, svo sannarlega gerðu þeir það, --- tæki fyrir um 100 millj. og settu upp stofu og veita þar afburða góða þjónustu, enda valinn maður þar í hverju rúmi. Þegar ég kom í tryggingaráð höfðu þessi kaup raunar farið fram. En það átti að neita að greiða fyrir þessa þjónustu. Tryggingastofnun tapaði því máli, eins og vita mátti, og varð að greiða háar upphæðir í sakarkostnað. Þessi þjónusta hefur auðvitað orðið mjög svo til góðs enda fær fólk þar framúrskarandi góða þjónustu. Ég er ekki þar með að segja að mér þyki það æskilegt að einstaklingar taki sig saman og fjárfesti í milljóna tækjabúnaði og opni sínar eigin læknastofur. Það held ég okkar litla þjóðfélag þoli illa. En þegar tækin fást ekki vegna þess að íslenska ríkið tímir ekki að kaupa þau, vill ekki kaupa þau --- því það eru til peningar fyrir þeim, hvað gerum við þá? Þá getum við ekki verið á móti því að slík stofnun fái fyrirgreiðslu í Tryggingastofnun ríkisins eins og aðrar sjúkrastofnanir.

Öll vitum við hvernig farið hefur með uppbyggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík. Hér höfum við ár eftir ár eftir ár, ég held allar götur síðan ég kom á þing árið 1979, verið að samþykkja lög til eins árs í hvert sinn, þar sem frestað er uppbyggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík. Það mætti telja svona alveg endalaust. Á síðustu örfáum árum og ekki síst í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar er búið að skera niður við trog aðgengi fólks að sjúkrastofnunum, hækka hlut sjúklinga í nánast öllum tegundum þjónustu þannig að fólk veigrar sér svo sannarlega við að leita hennar. Ég hygg að allmargir foreldrar ungra barna í Reykjavík t.d. hlaupi ekki jafnhratt og við gerðum verði barn fyrir smávegis meiðslum vitandi að það kostar 2.400 kr. að reka andlitið inn á slysadeildina. Við þekkjum hversu tannhirðu smábarna hefur hrakað og þannig mætti lengi telja. Ég þekki þess fjölmörg dæmi að fólk dregur í lengstu lög að leita læknis vegna þess að það kostar peninga. Það er því svolítið einkennilegt fyrir mig að lesa hér að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu meðferð sem á hverjum tíma er völ á að veita. Ég held að þetta sé ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Enda mætti þá spyrja hæstv. ráðherra: Ef þetta er svo og svo sannarlega er ég samþykk því, hvað er þá forgangsröðunarnefnd að gera? Hverju er hún að raða í forgang? Það væri gaman að vita hvernig sú nefnd vinnur, sem er þar að ákveða hvaða sjúklingar fái fyrr þjónustu en aðrir.

Það kann að vera íhaldssemi af verstu tegund en í minni sveit hélt ég að það hefði verið heilög eining um það að líf væri öllu æðra, því bæri að bjarga undir öllum kringumstæðum og í það bæri að halda í lengstu lög, til þess væru læknar og hjúkrunarfólk. Ég hef ekki orðið vör við að Alþingi Íslendinga hafi breytt þessari skoðun. Hafi það gert það, þá verður það að þora að gera það þannig að ekki verði misskilið, að nú sé það svo að sumir Íslendingar séu ja, minna virði en aðrir og skuli síður á vetur settir. Svo einfalt er það. Þetta verðum við þá auðvitað að þora að segja. Á meðan við erum með þak á þjónustu sem Tryggingastofnun ríkisins veitir þá erum við að segja: Við ætlum ekkert að lækna alla, við ætlum bara að lækna suma.

Hæstv. forseti. Þetta er orðin ansi löng umræða en ég hlýt að vekja athygli, eins og fleiri hafa gert í dag, á því að ég hygg að sveitarfélögin hljóti að senda frá sér einhverjar línur í sambandi við þetta frv. Ég held að þau eða forsvarsmenn þeirra hljóti að krefjast þess að fá að vita hvað er áætlað að leggja á þau fjárhagslega, því það er auðvitað umtalsvert þó hvergi sé gefið í skyn hvað það sé mikið. Það hlýtur að verða að liggja fyrir um hve mikla fjármuni er að ræða sem öll sú þjónusta á að kosta sem stendur til að setja á sveitarfélögin.

Rétt að lokum. Ég spurði áðan hvort um væri að ræða með þessu frv. þrengingu á læknalögum, þ.e. lögum um breytingu á læknalögum, nr. 53/1988, um upplýsingar á sjúkraskrám. 16. gr. þeirra laga hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sjúkraskrá er eign heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða læknis sem hana færir.

Lækni er skylt að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár, allrar eða að hluta. Sama gildir gagnvart opinberum aðilum sem lögum samkvæmt athuga kæru sjúklings eða umboðsmanns vegna læknismeðferðar.``

Ég bað starfsfólk að finna fyrir mig þessa grein, en þar stendur ,,allrar eða að hluta``. En hér segir í hinu nýja frv.:

,,Upplýsingar í sjúkraskrá sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal ekki sýna honum nema með samþykki þess sem upplýsingarnar gaf.``

Þar með stendur eftir að heilbrigðisstarfsfólki er heimilt að neita að gefa upplýsingar úr sjúkraskrá sem þeir sjálfir hafa samið eða skrifað.