Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:33:14 (3657)

1997-02-18 17:33:14# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:33]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á barnaspítala. Ég ætla að leiðrétta orðnotkun hennar þegar hún segir mig viðkvæman fyrir þessu máli. Hið sanna er að þetta er mér mikilvægt mál, þetta er mitt hjartans mál. Og eðlilega hitnar mér í hamsi þegar ég ræði um það og verð var við að menn ætla sér í almennu snakki og spjalli að skauta fram hjá grundvallarspurningum. Og það þarf þess vegna engum að koma á óvart þó að ég láti aðeins í mér heyra hér og ég ætla að gera það.

Það kemur mér feykilega mikið á óvart, virðulegi forseti, að það skuli hafa tekið hæstv. heilbrrh., Ingibjörgu Pálmadóttur, eitt og hálft ár í embætti að átta sig á nauðsyn þess að byggja þyrfti barnaspítala. Hún lýsti því hér áðan að ákvörðun um þetta stórverkefni hefði ekki verið tekið fyrr en í desember sl., rúmu einu og hálfu ári eftir að hún settist upp að Laugavegi 116. Það er með fádæmum að það skuli hafa tekið hana allan þennan tíma og það skýrir auðvitað margt, þann slappleika og þær frátafir sem hafa orðið á gangi þessara mála. Ég endurtek enn og aftur að þetta mál var þrautkannað og undirbyggt í ráðherratíð minni. Í maí 1994, ég fór úr heilbrrn. í júní það sama ár, var gengið frá samkomulagi við Hringskonur, sem hafa barist fyrir því að koma upp þessum mikilvæga spítala og hafa safnað umtalsverðum fjármunum til þess arna, um hvernig að verki skyldi staðið. Þar komu einnig að stjórnendur Ríkisspítalanna en þeir hafa líka yfir að ráða umtalverðum fjármunum í sérstökum byggingarsjóði. Því spyr ég hér beint: Hvaða tímamörk eru á þessu stóra máli? Það einasta sem bundið er í samþykktir þingsins er heimild í fjárlögum (Forseti hringir.) um að selja skuli land hér sunnan við Reykjavík. Hefur það tekist? Hvað hefur byggingarnefndin langan tíma til að ganga frá öllum endum og til þess að ýta þessu máli úr vör? Ég spyr beint og vil fá hreint og skýrt svar.