Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:50:57 (3662)

1997-02-18 17:50:57# 121. lþ. 72.9 fundur 163. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eðli málsins samkvæmt ættu öryrki og ellilífeyrisþegi að hafa sama lífeyri. Þetta eru tveir einstaklingar sem þurfa að komast af með þennan lífeyri og þess vegna er eðlilegt að þeir hafi sama lífeyri. Hins vegar hafa menn séð að öryrkjar hafa á margan hátt meiri útgjöld vegna þess að þeir eru yngri og standa í því að koma sér upp húsnæði og stundum börnum og hafa þar af leiðandi meiri þörf fyrir peninga og því hafa menn ákveðið að öryrkjar hafi betri bætur en ellilífeyrisþegar.

Sú tillaga sem hér liggur frammi snýr þessu aftur við, fyrir suma, þá sem verða öryrkjar áður en þeir verða ellilífeyrisþegar. Ég spyr hv. þm. hvort hann telji eðlilegt að maður sem verður fyrst öryrki og síðan ellilífeyrisþegi eigi að hafa hærri lífeyri en maður sem verður bara ellilífeyrisþegi og af hverju. Telur hv. þm. að þessi tillaga muni gera kerfið enn þá einfaldara sem er nú svo einfalt og dagljóst að hver einasti Íslendingur skilur það?