Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:55:56 (3666)

1997-02-18 17:55:56# 121. lþ. 72.9 fundur 163. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:55]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þetta frv. hv. 18. þm. Reykv. Þetta er auðvitað hárrétt og það er fáránlegt í sjálfu sér að þessi munur skuli vera á bótum til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega.

En erindi mitt í ræðustól er að spyrja hv. 16. þm. Reykv., Pétur Blöndal, sem er landskunnur fjármálamaður og sá maður sem hefur, ég vil segja, mikið vit á peningum og gildi þeirra. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. segði að örorkulífeyrsþegar væru gjarnan að koma sér upp húsnæði. Nú langar mig að spyrja: Hvernig í ósköpunum fer maður sem lifir á örorkubótum, jafnvel þó að hann njóti örorkulífeyris, tekjutryggingar og þeirra bóta sem til geta fallið, að því að koma sér upp húsnæði?