Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:57:20 (3667)

1997-02-18 17:57:20# 121. lþ. 72.9 fundur 163. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Margir verða öryrkjar eftir að hafa tekið á sig skuldbindingar vegna íbúðarkaupa og annars slíkt og mjög margt af því fólki sem hefur lágar tekjur er fært um að leggja til hliðar engu að síður þannig að menn eru oft að koma sér upp húsnæði þó að þeir verði öryrkjar. Og menn eru líka að sjá um uppeldi barna þó þeir séu öryrkjar. Sem betur fer gengur það þannig að fólk notar þessar litlu bætur sínar til þess að koma sér upp húsnæði og til þess að koma upp börnum. Þar af leiðandi er maður sem er öryrki yfirleitt í flestum þjóðfélögum talinn þurfa meira, af því að hann er á virkum aldri, en maður sem er ellilífeyrisþegi. Þetta er talið vera grundvallaratriði ef það á yfirleitt að vera munur þarna á. Ég er ekkert sannfærður um að það eigi að vera munur. Ef maður lítur bara á framfærsluna, þá hefur maður, hvort sem hann er ellilífeyrisþegi eða örorkulífeyrisþegi, jafnmikla framfærslu þannig að að því leyti ætti þetta að vera hvort tveggja eins.

En þessi tillaga sem við erum að ræða er að því leyti undarleg að ef menn verða öryrkjar áður en þeir verða ellilífeyrisþegar þá eiga þeir að fá hærri lífeyri heldur en ef þeir fá sömu einkenni og öryrkjar hafa eftir að þeir eru orðnir ellilífeyrisþegar, þó að lagalega séð verði þeir ekki öryrkjar. Að sjálfsögðu getur fólk verið fatlað og verið ellilífeyrisþegar eigi að síður og þarf þá á aðstoð að halda sem það getur fengið. Ég sé því ekki af hverju menn eigi að vera betur settir hafandi fyrst fengið örorkulífeyri og síðan ellilífeyri heldur en það væri öfugt.