Umönnun aldraðra

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:32:22 (3674)

1997-02-18 18:32:22# 121. lþ. 72.10 fundur 201. mál: #A umönnun aldraðra# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:32]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég kom að því í máli mínu áðan að ég teldi ekki óeðlilegt að hafa eftirlit með þessum aðilum og það þarf að gera það. Við erum þá sammála um það, ég og flm. þáltill., hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson, að auðvitað þarf að hafa eftirlit með þessum aðilum og ríkið þarf að fylgjast nánar með því hvernig peningum þess er eytt. Mér finnst ekkert að því.

Hitt er svo annað mál að þegar ég talaði um Norðurlöndin þá hefði ég átt að nefna Evrópu því það er víða sem forsvarsmenn sjómannasamtakanna sem reka Hrafnistuheimilin hafa litið til margra átta þegar uppbygging þeirra heimila hefur farið fram. Það var komið sérstaklega inn á Bandaríkin en þar er greiðsluformið svo margþætt, allt frá því að kosta mörg þúsund dollara á dag að búa á slíku heimili og niður í mjög lága upphæð, og þá er þjónustan alveg í samræmi við það. Ég held að það sé kannski ekki alveg sá standard sem við erum tilbúin að setja upp í dag en það kemur ef til vill einhvern tíma að því þegar menn hafa keypt sér miklar tryggingar og eru tilbúnir til þess að búa nánast á hóteli sem er allt í lagi ef menn hafa efni á því.

En auðvitað gengur þjónustan og það sem gert er nú þegar í ljósi þess að hér í Reykjavík eru um 200 manns sem bíða eftir því að komast á hjúkrunarheimili og annar eins hópur sem bíður eftir að komast á vistheimili þannig að vandamálið er stórt, á því er ekki nokkur vafi. Og á meðan svo er held ég að sú reynsla sem við höfum fengið af þeim byggingum og þeim rekstri sem fyrir er hafi leitt menn nokkuð fram veginn þó að auðvitað þurfi að gera betur og enn þarf að skoða málin vegna þess að það er alveg rétt að það er ekkert öðruvísi í Bandaríkjunum heldur en á Íslandi eða í Færeyjum eða hvert sem litið er. Alls staðar standa menn frammi fyrir þeim vanda að hinum öldruðu fjölgar og auðvitað þarf að hugsa til þeirra, ekki hvað síst fyrir okkur Íslendinga, minnugir þess að það eru hinir öldruðu sem hafa byggt upp nýja þjóð og búið þannig veginn fyrir okkur að Íslendingar lifa nokkuð þokkalegu lífi.