Tilkynningarskylda olíuskipa

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 19:02:42 (3682)

1997-02-18 19:02:42# 121. lþ. 72.14 fundur 303. mál: #A tilkynningarskylda olíuskipa# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[19:02]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning. Auk mín er meðflutningsmaður Guðjón Guðmundsson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu, m.a. heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar. Reglurnar nái einnig til olíuskipa í siglingum milli hafna hér á landi. Enn fremur verði sett skýr ákvæði er banna öllum skipum losun á ,,ballest`` nema í ákveðinni, tiltekinni fjarlægð frá landi (eða á ákveðnu dýpi).

Jafnframt verði mótaðar reglur um hvaða ráðuneyti og stjórnsýslustofnanir fari með forræði um allar aðgerðir sem grípa þarf til þegar mengunarslys verða á sjó eða við strendur landsins.``

Virðulegi forseti. Ekki vill svo til að samgrh. sé í húsinu?

(Forseti (ÓE): Samgrh. er ekki í húsinu. Er hans saknað?)

Sárlega. --- Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera tilkall til þess að hann komi hér en ég vildi þó að gefnu tilefni, vegna þess að þetta er a.m.k. í annað skipti sem þessi þáltill. er flutt, vitna til afar athyglisverðra umsagna nokkurra aðila sem hafa látið frá sér heyra um þetta mál. Fyrst er þess að geta að í lögum um leiðsögu skipa segir svo í 6. gr., með leyfi forseta, um tilkynningu komu skipa:

,,Öll skip, er koma erlendis frá inn í íslenska landhelgi með landtöku í huga, skulu með minnst 24 klst. fyrirvara tilkynna komu sína til hafnaryfirvalda í fyrstu viðkomuhöfn. Erlend veiðiskip, sem sigla inn í íslenska efnahagslögsögu, skulu tilkynna það Landhelgisgæslu Íslands. ... Einnig skal geta áætlaðs komutíma og hvort óskað er leiðsögumanns.``

Ég get þessa hér af sérstöku tilefni vegna þess að ekki er langt síðan mengunarslys varð við Breiðdalsvík þar sem ekki var hafnsögumaður um borð og varð þar um nokkurt mengunarslys að ræða. Þá kom berlega í ljós, sem hér er sérstaklega getið í þessari þáltill., að ekki lá ljóst fyrir hver væri hinn afgerandi aðili í stjórnsýslunni sem færi með forræði um allar aðgerðir og grípa til þeirra ráðstafana sem þurfti strax.

Í umsögn Landhelgisgæslunnar kemur fram að þeir telja þetta mál hið þarfasta og mjög nauðsynlegt. Frá Olíufélaginu Esso kemur meira að segja svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Um árabil hefur Siglingamálastofnun ríkisins haft helstu umsjá vegna aðgerða við mengunarslys, þó aðrir aðilar hafi einnig komið þar við sögu. Ástæða er til að fagna því, að með þingsályktunartillögunni verði stefnt að því, að afmarka á skýrari hátt hver skuli fara með forræði í mengunarslysum á sjó eða við strendur landsins. Rétt þykir að leggja áherslu á, að einhverjum einum aðila, ráðuneyti eða stjórnsýslustofnun, verði falið forræði um allar aðgerðir sem grípa þarf til í slíkum tilvikum.``

Sama kemur frá Olíuverslun Íslands. Ég vildi þó koma hér víðar við og eins og segir hér frá umhvrn.:

,,Hvað varðar það sem segir í tillögunni um heimild til stöðvunar skips, þá leggur ráðuneytið til að tillagan taki einnig til þeirra tilvika þegar mengun er yfirvofandi. Hvað varðar ákvæði um bann við losun á ballest, fljótandi kjölfestu, telur ráðuneytið að hér sé um þarft ákvæði að ræða og fagnar ráðuneytið þessari tillögu.``

Siglingamálastofnun styður þessa tillögu og Náttúruverndarráð ,,telur brýnt að mótaðar verði skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu. Meðal annars er talið brýnt að sett verði skýr ákvæði í lög um heimildir íslenskra stjórnvalda til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar.``

Virðulegi forseti. Í bréfi frá Sambandi ísl. kaupskipaútgerða kveður hins vegar við annan tón og með leyfi forseta ætla ég að grípa hér aðeins niður í örfá atriði, tímans vegna. Þar segir m.a.:

,,Það er hægt að staðhæfa að Ísland mun ekki fá hljómgrunn fyrir eða undirtektir undir rök um að jafnstopular siglingar með jafnlítið magn af tiltölulega hreinum olíutegundum geti ógnað hagsmunum Íslands í efnahagslögsögunni, enda mundu hliðstæð rök annarra ríkja leiða til að öll hafsvæði heimsins yrðu að afmörkuðum siglingaleiðum. Í ljósi tilboðs olíufélaganna um að beina innflutningsskipum djúpt fyrir Reykjanes eins og fram kom í fyrrnefndum viðræðum stjórnvalda og hagsmunaaðila um málefni þingsályktunartillögunnar, þá verður ekki séð tilefni til afmarkaðra siglingaleiða olíuskipa og skipa með hættulegan varning til landsins enda óraunhæft að ætla að slíkt fáist staðfest alþjóðlega.``

Síðan segir: ,,Að mati SÍK og aðildarútgerða þess er vandamálum vegna flutnings á sjókjölfestu milli lands best borgið þar sem þau eru þegar til umfjöllunar innan Hafnasambands sveitarfélaga og hjá Vita- og hafnamálastjórn og ekki tilefni til frekari ályktana þar að lútandi.``

Herra forseti. Ég á hér annað bréf frá þessum aðila sem skrifar fyrir hönd Sambands ísl. kaupskipaútgerða. Hann gerir líka athugasemdir fyrir Reykjavíkurhöfn varðandi þetta sama mál og þá segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í ljósi bæði viðkvæmra umhverfisaðstæðna í Reykjavíkurhöfn sem og mikilvægis ómengaðs sjávar við Íslandsstrendur er fyllsta ástæða, í ljósi fyrri biturrar reynslu nokkurra strandríkja og hafna, að huga vandlega að þeim hættum sem fylgja kjölfestusjó aðkomuskipa frá framandi haf- og hafnarsvæðum.``

Virðulegi forseti. Að lokum þetta frá Hollustuvernd ríkisins. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Stofnunin er einnig sammála um það sem segir í tillögunni um íhlutun, en leggur til að bætt verði inn í tillöguna eftirfarandi: ,,... m.a. heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar eða yfirvofandi mengunar ...``

Þeim sem starfað hafa að skipulagningu mengunarvarna hjá íslenskum stjórnvöldum hefur lengi verið það ljóst að stjórnvöld geta ekki beitt sér við íhlutun ef á þarf að halda á neyðarstundu þar sem skort hefur lög til að vísa í.

Mengunarvarnir sjávar lýsa sérstaklega ánægju sinni með þessa tillögu þar sem fáir aðrir hér á landi gera sér meiri grein fyrir því hve mikill umhverfisskaði getur orðið við mengunaróhapp og ekki síst kostnaður sem getur hlotist, en hann getur hlaupið á milljónum króna, tugmilljónum eða jafnvel á hundruðum milljóna svo vitnað sé til Noregs, en þar hefur kostnaður orðið um 400 millj. íslenskra króna við óhapp sem vel gæti orðið hér við land.``

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekar ofan í þau gögn sem borist hafa vegna þessarar till. til þál. En ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér þykir það nokkuð sérkennilegt hversu lítt stjórnvöld hafa tekið undir þetta mál með tilliti til þess sem ég hef vitnað hér til. Staðreyndin er sú að ef svo óheppilega vill til að skip strandar hér við land, þá þarf að ganga á milli æðimargra ríkisstofnana áður en ákvörðun er tekin um hvað gert skuli.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að þessari þáltill. verði að lokinni umræðu vísað til hv. samgn.