Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 19:37:31 (3688)

1997-02-18 19:37:31# 121. lþ. 72.18 fundur 325. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[19:37]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgang nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni. Tillagan er á þskj. 588. Flm. auk mín eru hv. þm. Árni M. Mathiesen, Egill Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðný Guðbjörnsdóttir, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Hjálmar Árnason, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján Pálsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Svanfríður Jónasdóttir.

Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera áætlun um að innan þriggja ára hafi sérhver nemandi í opinberum skólum aðgang að tölvum og tölvutæku námsefni minnst einn tíma á dag.``

Herra forseti. Þessi ályktun er að öllu leyti í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur sagt m.a. að hún stefni að átaki á sviði menntamála. Menntmrn. hefur auk þess tekið fram að það stefni að því að við námsgagnagerð verði nýttir kostir margmiðlunar til að efla menntun og auka fjölbreytni í skólastarfi. Ef þessi tillaga verður samþykkt mun hún undirstrika vilja hins háa Alþingis til að standa að þessum breytingum og átaki sem ríkisstjórnin stefnir að.

Herra forseti. Nýleg könnun á getu íslenskra nemenda í raungreinum sýnir að þeir hafa hugsanlega ekki þá þekkingu og færni sem æskileg er og nauðsynleg ef þjóðin ætlar að standa sig í samkeppni þjóðanna í framtíðinni. Því er þörf úrbóta.

Eins og áðan kom fram í máli hv. þm. um síðasta dagskrárlið er sífellt verið að auka kröfur um nám í sífellt fleiri greinum í skólunum. Börnin þurfa að læra um umhverfismál og fjármál og alls konar ný mál sem gerðar eru kröfur um að þau læri. Því er mál dagsins að auka framleiðnina, gera þeim fært að læra hraðar og betur en hingað til. Í þeirri könnun sem ég gat um áðan var áberandi að í stærðfræði og eðlisfræði stóðu íslenskir nemendur sig frekar illa. En það væri mjög rangt að álykta út frá því að við ættum allt í einu að fara að leggja gífurlega áherslu á þær greinar og gleyma öllum öðrum því það er ekki síður mikilvægt að læra tungumál, íslensku og sögu en stærðfræði. Þess vegna þurfum við að snúa okkur að nýjum verkfærum til að stunda kennsluna og þá kemur tölvan einmitt upp í hugann.

Möguleikar tölvunnar eru gífurlegir. Hún blandar saman texta, tóni, mynd og kvikmynd í einu á meðan við höfum hingað til eingöngu haft bókina sem er texti og töfluna sem er sömuleiðis texti. Hún gerir mögulega hluti sem við sjáum engan veginn fyrir okkur, t.d. að gera stærðfræðina sýnilega, gera eðlisfræðina hreyfanlega, gera tungumálakennsluna þannig að ef smellt er á orð þá kemur framburðurinn viðkomandi máls fram, þýðingin og málfræðin sem varðar orðið. Þannig má hugsa sér ótal möguleika tölvutækninnar sem munu gjörbreyta kennsluháttum ef rétt er að staðið. Auk þess hefur tölvan þann kost að hún er alltaf til staðar fyrir nemandann. Nemandinn ræður ferðinni og hann verður virkur. Tölvan þreytist aldrei. Hún verður aldrei óþreyjufull, jafnvel ekki þegar nemandinn spyr í þrítugasta skipti hvað ákveðið orð í dönsku þýðir. Tölvuvæðing mun nýtast þeim nemendum sem fara út frá meðaltalinu, þeim sem hafa orðið útundan í dag, þ.e. þeim nemendum sem þurfa mikinn tíma og líka þeim nemendum sem þurfa lítinn tíma. Þeir munu nýta þessa tækni mest allra vegna þess að það er nemandinn sem ræður hraðanum.

Með því að nota tölvu og tövuforrit má stórauka framleiðni í kennslu, en í grundvallaratriðum má segja að kennsluformið hafi verið óbreytt um aldir. Það má segja að við kennum enn þá með svipuðu formi og Grikkir til forna, þ.e. það er einn kennari og hópur af nemendum. Auðvitað notum við alls konar tækni en í grundvallaratriðum er þetta svo. Því sem aukin tölvunotkun við kennslu kynni að breyta er að nemandinn verður virkur. Í staðinn fyrir að einn kennari sé virkur og 20--30 nemendur meira og minna óvirkir þá verður nemandinn virkur en kennarinn verður meira og minna óvirkur. Það verður því grundvallarbreyting á kennslunni.

Sumir óttast að með tölvuvæðingu fylgi félagsleg einangrun, börnin sökkvi sér niður í tölvuna og gleymi sér. Þessu þarf að sjálfsögðu að vinna á móti, en ég vil jafnframt geta þess að í núverandi kennslufyrirkomulagi þar sem nemendur eru óvirkir og verða að hlusta og þegja þá eru þeir líka félagslega einangraðir.

Það má ekki gleyma því, en það vill oft gleymast þegar verið er að tala um tölvuvæðingu, að það er ekki nóg að kaupa tölvur. Það er engan veginn þannig. Ég geri ráð fyrir að menn þurfi að áætla að eyða ekki minna fé í hugbúnaðargerð og kaup á hugbúnaði og aðlögun hugbúnaðar heldur en kaup á tölvum. Svo má ekki gleyma því að þetta er ákaflega hröð fjárfesting, ákaflega hröð þróun, og það þarf að afskrifa þennan búnað á mjög stuttum tíma, jafnvel á þrem árum.

Það er mjög mikilvægt við framkvæmd þessa átaks að haft sé samráð og samskipti við kennara um það að þeir séu með í því að þróa og aðlaga hugbúnað og einnig að búa til nýjan hugbúnað og að þeir læri á þann hugbúnað sem fundinn verður.

Ég get ekki látið hjá líða að líta á kostnaðinn sem þessu fylgir. Ef gert er ráð fyrir að þrír nemendur verði um hverja tölvu í grunnskólunum og einn í framhaldsskólunum þá má gera ráð fyrir að það þurfi að kaupa 10.000 tölvur á hverju ári næstu þrjú árin. Og vegna þess hversu afskriftir eru hraðar þá verður það viðvarandi fjárfesting. Ef gert er ráð fyrir sambærilegum kostnaði við þróun hugbúnaðar þá er verið að tala hér um 1,2--1,8 milljarða á ári. Það eru miklir peningar. Þetta er því kostnaðarfrv. á sama tíma og við erum að tala um niðurskurð og hallarekstur á ríkissjóði eða að minnka halla ríkissjóðs og því kann þetta að líta þannig út að þetta sé ekki sérstaklega skynsamlegt. En menntun er fjárfesting og það skiptir verulegu máli í lífskjörum komandi áratuga hvernig staðið er að menntun dagsins í dag. Vegna þess hve langt er í að slík fjárfesting skili arði er hætt við að hún víki fyrir annarri sem sýnist brýnni. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að menn taki á honum stóra sínum og stundi þessa framtíðarfjárfestingu þannig að ekki fari illa fyrir þjóðinni í framtíðinni.

Sveitarfélögin sjá um grunnskólann og þess vegna er nauðsynlegt að þau komi inn í þann þáttinn og að þeim verði séð fyrir fjármunum til að kosta sinn hlut í þessu verkefni. Það mætti huga að því hvort það mætti hægja á einsetningu skóla ef mönnum þykir kostnaðurinn mikill vegna þess að það kann að vera að sú breyting sem tölvuvæðing gæti leitt af sér þýddi allt annan skóla heldur en við höfum nú. Þýddi að ekki yrði lengur um að ræða bekki í hefðbundnum skilningi heldur hópa nemenda sem eru nokkrir um hverja tölvu og að það þyrfti allt aðra uppbyggingu á skólastarfi en hingað til. Þá er slæmt ef kannski er búið að fjárfesta mikið í einsetningu skóla á sama tíma. Svo er líka hugsanlegt að menn líti til þess að foreldrar væru tilbúnir til að kaupa tölvur handa nemendunum og eigi þar af leiðandi hlut í þeim. En það yrði að sjálfsögðu að gerast þannig að skólarnir stunduðu miðstýrt útboð.

Þessi tillaga mun minnka þann aðstöðumun sem er milli þéttbýlis og dreifbýlis vegna þess að með hjálp internetsins getur kennslan verið á einum stað en notuð alls staðar. Þetta er einmitt það sem við sjáum núna í háskólanum þar sem núna er verið að búa til námsefni sem er hægt að nýta út um allan heim. Þannig mun kennslan verða miklu ódýrari og betri og styðja kennarana á hverjum stað, jafnvel í afskekktustu byggðum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál öllu lengra enda er langt liðið á kvöld. Legg ég til að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til menntmn. og síðari umr.