Lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:32:37 (3691)

1997-02-19 13:32:37# 121. lþ. 73.1 fundur 283. mál: #A lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:32]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til samgrh. um lýsingu á Suðurlandsvegi um Hellisheiði. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er einnig flm. á þessari fyrirspurn. Fyrirspurnin hljóðar svo:

,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 29. febrúar 1988 um könnun á kostnaði við að lýsa upp Suðurlandsveg frá Reykjavík um Hellisheiði að Hveragerði?

Hefur verið leitað leiða til að framkvæma verkið, svo sem boðið er í ályktuninni?``

Það var árið 1988 að Alþingi samþykkti þessa ályktun. Það var Eggert Haukdal, fyrrv. alþm., og fleiri sem fluttu þáltill. þá.

Tilefni þess að ég dusta rykið af þessari þingsályktun er að ég tel að sá tími sé að koma að menn hafi alla vega skilning á mikilvægi þessa verks. Menn sjá glöggt á Reykjanesbrautinni hverja þýðingu lýsing hefur á þeim fjölfarna vegi. Þetta snýr að öryggi vegfarenda. Hellisheiði er fjölfarnasti fjallvegur landsins. Þar er mjög breytileg veðrátta og ég vænti þess enn fremur að með batnandi fjárhag ríkisins standi vilji til þess að framkvæma svona verk sem veitir vegfarendum aukið öryggi.

Ég viðurkenni auðvitað að það er margt fleira sem mætti gera á þessari leið og er baráttumaður þess að auka öryggi vegfarenda.

Ég minnist þess hvað Reykjanesbrautina varðar og lýsingu þar að þar kom sérstök fjárveiting til lagfæringar á þeim vegi utan skipta sem nýtt var í þessa framkvæmd.

Hvað aðra þætti varðar er auðvitað hægt að breikka veginn, það er hægt að lagfæra hann mjög með aukaakreinum í beygjum. Við sjáum það glöggt t.d. að enn vantar aukaakrein í Draugahlíðinni fyrir ofan Litlu kaffistofuna. Við sjáum muninn í skíðaskálabrekkunni og Lögbergsbrekkunni þegar komin er aukaakrein hversu mikilvægar þær eru og draga úr slysum.

Enn fremur má minnast á að það er jafnvel hægt að laga brekkur með því að nota heitt vatn sem þarna er til þess að bræða klakann þannig að það er af mörgu að taka hvað þetta varðar. Þessi leið er jafnfjölfarin og Reykjanesbrautin stóran hluta af árinu eða milli 5 og 6 þúsund bifreiðar á dag. En meðaltalið yfir árið eru 3.500 bílar.

Ég legg þessa fyrirspurn í hendur hæstv. samgrh.