Lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:42:16 (3694)

1997-02-19 13:42:16# 121. lþ. 73.1 fundur 283. mál: #A lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar og svara ráðherrans þykir mér rétt að benda á að reynsla af þessu fyrirkomulagi liggur fyrir á Óshlíð, á veginum milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, en fyrir nokkrum árum var sett upp lýsing á þeim vegi að ósk heimamanna sem töldu það verkefni öðrum brýnna í öryggisskyni.

Það er álit mitt og fleiri að reynslan af þessari framkvæmd sé sú að hér hafi verið rétt metið og það sé full ástæða til þess að hafa þá framkvæmd að lýsa fjölfarna millibyggðavegi mjög framarlega í forgangsröð þannig að ég get ekki tekið undir það sjónarmið sem kom fram í svari hæstv. ráðherra.

Hins vegar er líka rétt að benda á að á þessu landsvæði eru fleiri brýn verkefni og þingmenn kjördæmanna sem þar eru, á Suðurlandi og Reykjanesi, verða að meta það. Mér finnst t.d. vegur á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar eftir ströndinni vera ákaflega brýnt verkefni sem m.a. hefur þann kost að losna við fjallveg og hafa fleiri leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu en annars er og það er mikill kostur.