Lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:43:49 (3695)

1997-02-19 13:43:49# 121. lþ. 73.1 fundur 283. mál: #A lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir þá greinargerð frá Vegagerðinni sem hæstv. ráðherra las hér og hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Ég tek undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að vissulega var þetta ályktun Alþingis og Alþingi hefur talað í þessu máli og þetta snertir náttúrlega mjög mikinn fjölda fólks, ekki bara á Suðurlandi heldur ekki síður á höfuðborgarsvæðinu sem eiga heils árs hús og sumarlönd austan fjalls.

Vissulega er það svo eins og kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að það eru mörg stór verkefni sem bíða, ekkert síður á Suðurlandi en annars staðar. Hann minntist hér á mikilvægan veg með suðurströnd landsins frá Grindavík til Þorlákshafnar. Ég tek undir það og ég gæti farið út í að ræða um mörg þau stóru verkefni sem við þurfum að verja peningum í á Suðurlandi til þess að bæta þar atvinnu og samgöngur.

Hitt er rétt að sú fjármögnun sem notuð var til lýsingar á Reykjanesbraut kom af sérstökum lið sem Alþingi mótaði og ég tel að þetta sé hliðstætt mál eins og ég rakti í fyrri ræðu minni. Stóran hluta ársins er svipuð umferð, hættulegri leið á margan hátt. Ég ítreka því að þetta er brýnt verkefni. Auðvitað er að mörgu að huga eins og hæstv. ráðherra talaði um, einbreiðar brýr og fleira, en samt sem áður vona ég að það dragist ekki lengi enn að þetta mikilvæga verkefni, sem er bæði byggðamál og öryggisatriði, verði framkvæmt á allra næstu árum.