Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:48:54 (3697)

1997-02-19 13:48:54# 121. lþ. 73.2 fundur 318. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 579 flyt ég eftirfarandi fyrirspurn til samgrh. um almenningssamgöngur á landsbyggðinni:

1. Hefur samgönguráðuneytið kynnt sér horfur í almenningssamgöngum á landsbyggðinni eftir uppsagnir Pósts og síma hf. og Flugleiða á samningum við sérleyfishafa?

2. Mun ráðuneytið beita sér fyrir aðgerðum til þess að tryggja almenningssamgöngur í sessi við þessar nýju aðstæður?

Við þessar spurningar er kannski ekki miklu að bæta, en þó vil ég skýra þær í fáum orðum. Þann 4. des. sl. ritaði Félag sérleyfishafa samgn. Alþingis bréf þar sem m.a. er rætt um að blikur séu á lofti í sérleyfismálum vegna breyttrar áherslu í póstflutningum. Þar segir að ljóst sé að nokkur sérleyfi, sérstaklega á Austfjörðum, muni leggjast af vegna þess að póstflutningar sem hafa verið 60--70% af tekjum þessara sérleyfishafa muni færast frá þeim um næstu áramót. Auk þess hafi Flugleiðir sagt upp samningum á einstökum leiðum. Ljóst sé að fjárhagsgrundvöllur sérleyfishafa sé brostinn í fámennum byggðarlögum þegar samningar við þessa aðila eru ekki lengur fyrir hendi.

Ég tel að þarna sé drepið á mjög alvarlegt mál því að samgöngur sérleyfishafa, t.d. á Austurlandi sem vitnað er sérstaklega til, eru mjög mikilvægar fyrir samgöngukerfið í þessum landshlutum og flugið, svo dæmi séu tekin, heldur uppi samgöngum við almenning við fámenni og slæmar aðstæður oft og tíðum.

Ég geri mér alveg ljóst að vald ráðuneytisins til að segja fyrir í þessum efnum er takmarkað og ég geri mér ljóst að það er ekki á valdi samgrh. að mæla fyrir um það hvaða samninga Flugleiðir hf. gera við sérleyfishafa. Hins vegar hefur það verið þannig að hið opinbera, ríkisvaldið hefur látið sig þessi mál nokkru skipta. Sérleyfishafar hafa notið styrkja frá ríkisvaldinu sem eru ákveðnir við fjárlagagerð og af samgn. Alþingis og eftir samráð við samgrn. þannig að það er eðlilegt að spurt sé hvort ráðuneytið hafi í huga að setja vinnu í að kafa ofan í þessar breyttu aðstæður sérleyfishafanna. Þess vegna er málinu hreyft hér opinberlega.