Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:57:40 (3699)

1997-02-19 13:57:40# 121. lþ. 73.2 fundur 318. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:57]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem farið hefur fram um þessi mál. Ég held að þessi þáttur samgangna í okkar landi sé stundum vanmetinn, þ.e. almenningssamgöngurnar vegna þess að hér er um að ræða mjög mikilvægan hlekk í þeirri samgöngukeðju sem þarf að vera til staðar úti um allt land.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að almenningssamgöngur okkar á þessu sviði eru ekki ríkisstyrktar eins og þó er um almenningssamgöngur víða í Evrópu t.d. en það sem er kannski alvarlegast í þessu er það sem hæstv. ráðherra nefndi í lok ræðu sinnar áðan, sú breyting sem stendur fyrir dyrum vegna úrskurðar ríkisskattstjóra á skattlagningu þungaskatts á almenningsfarartækjum.

Það er alveg ljóst mál að ef þessi breyting kemur í framkvæmd mun hún sérstaklega verða íþyngjandi fyrir litlu fyrirtækin úti um allt land sem starfrækja almennt minni áætlunarbíla og það er alveg ljóst mál að þetta getur hreinlega riðið þessum rekstri víða um landið að fullu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist ekki beita sér fyrir því að þessari ákvörðun verði breytt, einkanlega í ljósi þess að nú standa fyrir dyrum gagngerar breytingar og algjör uppstokkun á fyrirkomulagi þungaskattsins með upptöku olíugjalds.